Síðastliðið haust hófst kennsla á ný í GRÓ-FTP, sjávarútvegsskóla Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, eftir árshlé á starfsemi skólans vegna heimsfaraldurs.
Nemendahópurinn var stærri en nokkru sinni, alls 27 nemendur frá nærri 20 löndum úr flestum heimshornum. Nemendurnir koma frá svokölluðum þróunarlöndum, eru yfirleitt sérfræðingar á sviði sjávarútvegsmála í sínum heimalöndum en afla sér frekari þekkingar hér á landi.
Sjávarútvegsskólinn hefur verið starfræktur hér á landi í meira en 20 ár. Hann er rekinn af Hafrannsóknastofnun en fjármagnaður af GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarmála sem starfar undir merkjum UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Auk sjávarútvegsskólans eru þrír aðrir skólar á vegum GRÓ, en þeir eru Landgræðsluskólinn, Jarðhitaskólinn og Jafnréttisskólinn.
Forstöðumaður er Mary Frances Davidson, en hún hefur lengi starfað við skólann og tók við stjórnartaumunum í haust.
- Tshepo Josephat Sebake fékk skírteini sitt einnig afhent úr hendi Svandísar Svavarsdóttur. MYND/Hafrannsóknastofnun
Veruleiki þeirra sem gleymdust
Tshepo Josephat Sebake starfar hjá ráðuneyti umhverfis, skógræktar og fiskveiða í Suður-Afríku. Hann nýtti sér tímann hér á landi til að skoða sérstaklega þau áhrif sem þarlend lög um fiskveiðistjórnun hafa á smábátaveiðar í vötnum.
„Löggjöfin var ekki samin með það í huga að gagnast smábátaveiðimönnum heldur frekar til þess að vernda fiskistofnana. Og það eru sögulegar ástæður fyrir því sem rekja má til tíma aðskilnaðarstefnunnar,“ segir hann.
Smábátasjómenn í Suður-Afríku eru flestir dökkir á hörund og Tshepo segir hagsmuni þeirra ekkert sérstaklega verið ofarlega í huga þeirra hvítu embættis- og stjórnmálamanna sem sömdu löggjöfina á sínum tíma. Og þótt lögunum hafi verið breytt með ýmsum hætti á síðustu áratugum þá gleymdist alltaf að huga að smábátasjómönnunum, og þá einkum þeim sem afla sér og fjölskyldu sinni matar og tekna með veiðum í vötnum.
Þvingaðir til lögbrota
„Staða þeirra sem veiða í sjó breyttist með lagabreytingu árið 2012 og eftir það njóta veiðar þeirra viðurkenningar. Í lögunum er einnig gert ráð fyrir frístundaveiðum, en engin ákvæði veita heimildir til veiða úr vötnum innanlands. Þannig að þegar þeir veiða handa sér og fjölskyldu sinni þá teljast þær veiðar ólöglegar. Þannig komast þeir í kast við lögin og þeir lenda einnig í átökum við frístundaveiðifólk sem veitist að þeim og reynir jafnvel að gera veiðarfæri þeirra upptæk.“
Rannsóknir sínar hér á landi ætlar hann að nýta þegar heim kemur í von um að geta ýtt á að breytingar verði gerðar á löggjöfinni þannig að enginn hópur verði skilinn útundan.
Sjálfur ólst Tshepo ekki upp við fiskveiðar en varð vitni að erfiðum lífskjörum þeirra sem stunda veiðar í vötnum landsins.
„Því miður er það enn raunveruleikinn og ég vona að það verði breytingar þar á. Þegar gerðar eru breytingar á lögum landsins er tilhneiging til að miða þær sérstaklega við þær greinar sem skila miklum tekjum og þá gleymum við þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.“
Hann segir tímann hér á landi hafa verið eftirminnilegan og lærdómsríkan.
„Það var mjög áhugavert að fá að kynnast fólki frá ólíkum menningarheimum. Það eru frábærir einstaklingar í hópnum sem starfa á ólíkum sviðum með mismunandi sérþekkingu.“
- Te Amohia Huriwhenua Walker með skírteini sitt ásamt Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegsráðherra. MYND/Hafrannsóknastofnun
Lifibrauð frumbyggja
Te Amohia Huriwhenua Walker hefur nýtt námið hér á landi til þess að skoða fiskveiðistjórnun á Nýja-Sjálandi út frá hagsmunum maori-þjóðarinnar, frumbyggja landsins.
Sjálf er hún af ættum maóra, raunar af tveimur ættflokkum á austurhluta Norðureyjunnar á Nýja-Sjálandi. Þar er hún alin upp við sjóinn þar sem fólk fer mikið út að veiða og synda, stundar köfun, kajakróður og aðrar sjóíþróttir. Sjávarfang er oft á borðum.
„Sjórinn er alltaf nálægur og hann er í raun grunnur tilverunnar hjá okkur, það sem mótar skilning okkar á því hver við erum.“
Hún segir að maorar hafi að miklu leyti gefið frá sér hefðbundinn rétt til þess að nýta hafið þegar Bretar tóku að leggja landið undir sig upp úr 1840. Bretar gerðu ýmsa samninga við maora og settu ýmis lög, þar sem stór landsvæði voru gerð upptæk og auðlindaréttur takmarkaður.
„Þeir tóku þannig lifibrauðið frá okkur sem olli margs konar erfiðleikum og þegar sett voru lög um fiskveiðar var komið í veg fyrir að við gætum stundað hefðbundnar fiskveiðar í hagnaðarskyni. Það var svo upp úr 1980 sem maorimenn voru búnir að fá sig fullsadda af þessu framferði.“
Málamiðlun
„Við náðum svo samningi um fiskveiðar árið 1992 sem var eins konar málamiðlun milli stjórnvalda og maori. Dómstólar höfðu þá viðurkennt að breska stjórnin hafði svikið margt af því sem lofað hafði verið strax í byrjun, upp úr 1840.“
Hún segir að í þessum samningum hafi maorimenn samt í raun verið hlunnfarnir því samið var um að þeir fengju til sín 20% af þeim aflaheimildum sem úthlutað er til fiskveiða.
„Frumbyggjakvótinn fer auk þess ekki til einstaklinga heldur til ættflokkanna, og þetta eru varanleg réttindi þannig að maroimenn geta ekki selt frá sér kvótann. Þetta á að endurspegla tengsl maorimanna við auðlindina, og snýst þá um að viðhalda þessum réttindum til komandi kynslóða.“
Hún segir félagsskapinn í sjávarútvegsskólanum hér á landi undanfarna mánuði hafa verið afar skemmtilegan.
„Ég held að við höfum öll tengst sterkum böndum. Við komum frá ólíkum heimshlutum og erum öll að ganga í gegnum sama menningarsjokkið. Við litum til með hvert öðru en fórum síðan hvert inn á sitt sérsvið. Allir sakna fjölskyldunnar og þá er gott að finna samstöðuna."