Tvö sjávarútvegsfyrirtæki, Stálskip og HB Grandi, voru í hópi fimm framúrskarandi fyrirtækja sem Creditinfo á Íslandi veitti viðurkenningu í dag, að því er fram kemur á vef LÍÚ. Alcan fékk viðurkenningu sem það fyrirtæki sem þótti standa sig best, en hin fyrirtækin sem fengu viðurkenningu voru Össur og CCP.
Aðeins 177 af 32.000 skráðum fyrirtækjum á Íslandi reyndust uppfylla þau skilyrði sem Creditinfo setur fyrir því að komast í flokk framúrskarandi fyrrtækja. Verðlaunin eru veitt að undangenginni ítarlegri greiningu Creditinfo sem sýnir hvaða íslensku fyrirtæki fá bestu einkunn í styrk- og stöðugleikamati félagsins.
Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskips, flutti stutt ávarp er hún tók við viðurkenningunni og sagði m.a.: „Framþróun í tækni er ör og ef við erum ekki samkeppnishæf við keppinauta okkar í öðrum löndum, sem margir njóta ríkisstyrkja, um markaðinn sem spannar allan heiminn, þá verðum við undir. Því er það lífsnauðsynlegt að rekstrarumhverfið sé tryggt, hægt sé að skipuleggja atvinnugreinina fram í tímann og að óvissu sé eytt um hvort grundvöllur verði fyrir áframhaldandi rekstri."