Útgerðarfyrirtækið Stálskip í Hafnarfirði greiddi að venju hæstu meðallaun allra þeirra fyrirtækja á landinu, sem tóku þátt í árlegri könnun tímaritsins Frjálsrar verslunar. Sem kunnugt er seldu Stálskip bæði skip sitt og kvóta í upphafi síðasta árs og voru ársverk aðeins þrjú árið 2014 samanborið við 30 árið á undan. Meðalárslaunin hjá Stálskipum voru rúmlega 21 milljón króna eða 1.756 þúsund á mánuði.
Fimm af tíu greiðendum hæstra meðallauna á landinu árið 2014 voru sjávarútvegsfyrirtæki. Í öðru sæti á lista allra fyrirtækja á landinu er Brim hf. með rúmlega 19 milljóna króna ársmeðallaun eða sem svarar 1.608 þúsund krónum á mánuði í meðallaun. Í fimmta sæti yfir landið er Bergur-Huginn ehf. með tæplega 17 milljónir í meðalárslaun eða 1.404 þús. kr. meðallaun á mánuði. Í sjötta sæti allra fyrirtækja er Gjögur ehf. með 16,3 milljóna króna meðalárslaun og í sjöunda sæti í hóp allra fyrirtækja er Eskja með 15,7 milljóna króna meðalárslaun.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum og í Frjálsri verslun.