Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að aflokinni góðri veiðiferð. Aflinn var 750 tonn að verðmæti 462 milljónir króna. Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort hann væri ekki ánægður með túrinn.
„Jú, þetta var ágætur túr. Veiðin var jöfn og tiltölulega góð allan túrinn. Við byrjuðum á Austfjarðamiðum og enduðum þar en vorum megnið af tímanum fyrir vestan. Þar vorum við hvað lengst á Látragrunni og síðan á Hampiðjutorginu og í Kartöflugarðinum. Aflinn er mjög blandaður; ýsa, ufsi, þorskur, karfi og grálúða. Það var blíða nánast allan túrinn. Við fengum örlítinn kalda undir lokin en það var ekkert til að tala um. Ég held að þetta sé stærsti túr Blængs á Íslandsmiðum hvað verðmæti varðar og auðvitað erum við glaðir með það. Blængur hefur einungis komið með meiri verðmæti í túrum í Barentshafið. Nú njóta menn sjómannadagshelgarinnar sem framundan er og síðan verður haldið á ný til veiða seinni part mánudags,” sagði Bjarni Ólafur.