Nýverið afhenti Bátasmíðastöðin Seigla ehf. á Akureyri bátinn Sögu K, sem er stærsti plastfiskibátur sem smíðaður hefur verið á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Saga K er smíðuð fyrir útgerðarfélagið Eskøy AS í Tromsø í Noregi en Íslendingar standa að því félagi. Saga K er 15 metra langur bátur og flokkast því sem smábátur í norska kerfinu. Skráð lengd er nánar tiltekið 14,98 metrar og skráð breidd er 5,70 metrar. Mesta lengd, frá trjónu framan á og með kassa að aftan, er hins vegar yfir 18 metrar og mesta breidd er 5,80 metrar. Hæðin er mikil á bátnum, um 8 metrar, enda er hann þriggja þilfara. Þess má geta til samanburðar að mesta hæð á 15 tonna plastfiskibátum hér á landi er um 5 metrar. Brúttótonn skipta ekki miklu máli í norska kerfinu en báturinn mældist um 50 brúttótonn væri hann skráður hér á landi. Á fyrsta þilfari í Saga K eru vélarrúm, fiskilest og fjórir tveggja manna klefar. Á öðru þilfari eru vinnsludekk með aðgerðarlínu, dráttarrými, línuspili, beitningarvél og línurekkum. Þar er einnig setustofa, eldhús, borðsalur, þvottahús, baðherbergi með sturtu og geymslur. Á þriðja þilfari eru stýrishúsið, skorsteinshús og loftinntak fyrir utan opið rými. Í stýrishúsi er fullkominn tækjabúnaður. Í Saga K er 911 hestafla Yanmarvél og getur báturinn náð um 12 mílna hraða á klukkustund. Fjöldi aðila kom að smíði Saga K eða útveguði tæki og búnað. Yanmar vélbúnaður og fleira kemur frá Marási ehf., tæki í brú koma frá Sónar ehf., krapavélin er frá Kælingu ehf., vinnslubúnaður er frá 3X Technology ehf., Mustad beitningarvél og línubúnaður er frá Sjóvélum ehf. Rafeyri ehf. á Akureyri annaðist raflagnir og fleira. Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.