Gerður hefur verið samningur um hönnun og smíði á stærsta brunnbáti í heimi. Norska fyrirtækið Havyard sér um verkið fyrir annað norskt fyrirtæki, Sölvtrans, sem annast rekstur brunnbáta fyrir fiskeldi bæði í Noregi og víðar um heiminn.

Skipið verður 116 metra langt og 23 metra breitt og mun kosta um 500 milljónir  norskra króna eða jafnvirði 6,2 milljarða íslenskra. Skipið fær nafnið Ronja Storm og hefur verið leigt til tíu ára til fiskeldisfyrirtækisins Huon við eyjuna Tasmaníu utan við Ástralíu.

Í skipinu er 7.450 rúmmetra rými í fisktönkum. Að auki getur skipið tekið með sér 5.000 rúmmetra af ferskvatni sem notað er í „laxaspítala“ um borð. Eldisfiskurinn við Tasmaníu er tekinn úr kvíum einu sinni í mánuði og færður í ferskvatn til þess að berjast gegn ákveðinni sýkingu sem kallast AGD. Þá er um borð í skipinu aðstaða til að flokka fisk og flytja sláturfisk og seiði. Frá þessu er skýrt á vef Kystmagasinet í Noregi.