Nú er unnið að stækkun fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði og er vonast til að því verki ljúki innan skamms. Starfsleyfi er fyrir 850 tonnum af hráefni á sólarhring eins og staðan er nú en eftir breytingarnar verður framleiðslugetan um 1.150 tonn á sólarhring.

,,Þetta er mjög stór framkvæmd. Við bætum við nýjum loftþurrkara, mjölvindu, mjölkæli, eimingartækjum og pressu. Vegna þessa hefur þurft að gera ýmsar breytingar en við búumst við að verksmiðjan, með þeim búnaði sem var fyrir stækkunina, verði orðin klár til að taka á móti kolmunna nk. miðvikudag og að ekki líði margir dagar eftir það þar til að nýi búnaðurinn verði tekinn í notkun,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði í samtali á vef fyrirtækisins .

Undanfarin ár hefur fiskmjölsverksmiðja HB Granda nýtt rafskautaketil til framleiðslunnar í stað hinna gömlu olíukatla og hefur það haft í för með sér sparnað á orkukostnaði og dregið úr innflutningi á erlendu jarðefnaeldsneyti. Verksmiðjan nýtir innlendan orkugjafa, svokallaða ótrygga orku, en sá galli er á gjöf Njarðar að ef ekki er nægilega raforku að fá á hverjum tíma þá verður að nýta olíu til orkuframleiðslu. Raforkan, sem miðlað er um byggðalínu, hefur reynst af skornum skammti í vetur en Sveinbjörn segir að sá skortur hafi ekki enn haft áhrif á verksmiðjuna á Vopnafirði vegna lítils loðnuafla.

,,Hins vegar er beygur í manni fyrir kolmunnavertíðina sem nú er hafin. Vatnsstaðan í öllum uppistöðulónum er í lágmarki og jafnvel þótt staðan þar væri betri þá er það byggðalínan sem er vandamálið. Hún ræður einfaldlega ekki við að flytja nægilega mikið af raforku út í hinar dreifðu byggðar landsins,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.