Með fyrirhuguðum breytingum á Vestmannaeyjahöfn verður hægt að taka inn stærri skip, sem er nauðsynlegt til að þjónusta sjávarútveginn og aðra atvinnustarfsemi í Eyjum og viðhalda um leið samkeppnisstöðu hafnarinnar og samfélagsins.

Þetta segir í skipulagslýsingu vegna áformaðar stækkunar og breytinga á Vestmannaeyjahöfn.

Málið var rætt 15. janúar í umhverfis- og skipulagsráði Vestmannaeyja sem samþykkti að skipulagslýsingin yrði auglýst og vísaði málinu til bæjarstjórnar.

Fram kemur í lýsingunni að athafnasvæði hafnarinnar sé orðið aðþrengt og skilyrði til að taka inn stór skip erfið.

Þegar gert ráð fyrir landfyllingu

„Til að tryggja nægt athafnarými og viðlegukanta við höfnina hafa bæjaryfirvöld áformað að stækka hafnarsvæðið og breyta aðalskipulagi á þeim svæðum þar sem ákjósanlegustu aðstæður eru taldar fyrir hafnarbakka, meðal annars með tilliti til mögulegrar legu og athafna fyrir stærri flutningaskip,“ segir í lýsingunni.

Í aðalskipulagi Vestmannaeyja sé þegar gert ráð fyrir stórskipakanti fyrir utan Eiðið sem og landfyllingu þar.

„Er sú staðsetning enn talin fýsilegur kostur en kostnaðarsöm og umsvifamikil framkvæmd. Með tilkomu landeldis í Viðlagafjöru verður til nýtt athafnasvæði hafntengdar starfsemi á austurhluta Heimaeyjar og því skapast forsendur fyrir að hafnarsvæði fyrir flutningaskip verði staðsett austar á eyjunni. Það er talinn fýsilegur kostur að stækka hafnarsvæðið við Skansfjöru til austurs út í Gjábakkafjöru og reisa svokallaðan Brimneskant.“

Vestmannaeyjahöfn. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Vestmannaeyjahöfn. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Gámasvæði við Brimneskant

Þá segir að mikil aukning hafi verið á gámaútflutningi og að þörf sé á stærra gámasvæði. Því sé slíkt svæði áformað við Brimneskantinn.

„Að auki er horft til stækkunar viðlegukants við Lönguna í átt að Hörgaeyrargarði auk styttingar Hörgaeyrargarðs.“

Breytingarnar eiga að felast í styttingu Hörgaeyrargarðs, gerðar viðlegukants undir Kleifum og við Löngu. Lengja á hafnarkantinn frá Kleifum í átt að Hörgaeyrargarði, byggja upp stórskipakant, svokallaðan Brimneskant frá Skansfjöru að Gjábakkafjöru. Þar verði að taka inn stærri flutningaskip, ekjuflutningaskip, auk farþegaskipa.

Upplifun ferðafólks sé mikilvæg

Einn fulltrúinn í umhverfis- og skipulagsráði, Bjartey Hermannsdóttir, sagðist ósamþykk „fyrirhuguðum breytingum á innsiglingunni, með tilheyrandi umhverfisraski á svæðinu,“ eins og segir í bókun hennar. Mikilvægt sé að varðveita óraskaða náttúru og ásýnd umhverfisins.

„Uppbygging er nauðsynleg og eðlilegur þáttur af þróun bæjarfélagsins, en náttúra Vestmannaeyja er dýrmæt auðlind og upplifun heimamanna og ferðafólks mikilvæg fyrir Eyjarnar, og má meðal annars nefna að tvö svæði í nálægð Gjábakkafjöru, Flakkarinn og Ystiklettur eru á náttúruminjaskrá,“ segir í bókun Bjarteyjar sem er fulltrúi Eyjalistans, annars af tveimur framboðum sem mynda meirihluta í bæjarstjórninni.

Reynt að takmark rask á sérstæðu landslagi

Að því er kemur fram í skipulagslýsingu liggja bæði svæðin sem horft er til við stækkun

Vestmannaeyjahafnar nærri hverfisvernduðum svæðum.

Vestmannaeyjad. FF Mynd/HAG
Vestmannaeyjad. FF Mynd/HAG

„Viðlegukantur við Kleifar liggur framan við Heimaklett sem er útivistarstaður en ásýnd Heimakletts skapar einnig sérstæða sýn þar sem brattur klettaveggur rís úr sjó. Mikilvægt er að viðhalda eins og hægt er þessari ásýnd sem skapar eitt helsta sérkenni Vestmannaeyja. Innan hafnargarða Hörgaeyrargarðs er Viðlagafjara þar sem er blómlegt æðavarp,“ segir í lýsingunni.

Þá er nefnt að við Gjábakkafjöru liggi hverfisvernduð svæði og að í nálægð fjörunnar liggi Flakkarinn sem sé á náttúruminjaskrá. Við Flakkarann sé  einnig vinsæll útsýnispallur þaðan sem sé útsýni yfir í Klettsvík og á Ystaklett.

Handan hafnarmynnisins sé hverfisverndarsvæði og Ystiklettur sem sé á náttúruminjaskrá.

„Við útfærslu skipulagsáætlana verður hugað að samspili við ofangreind svæði og reynt að takmarka rask á sérstæðu landslagi. Einnig verður hugað að því að varðveita ásýnd frá nálægum svæðum eins og mögulegt er,“ segir í skipulagslýsingunni