Fiskistofa hafði áður heimilað sams konar skipti, þar sem óskað hafði verið eftir því að flytja aflamark í makríl í B-flokki af aflamarksskipum yfir á krókaaflamarksbát í A-flokki. Þessi skipti opnuðu leið fyrir „hringekju“ þar sem þorskheimildir láku um tíma viðstöðulítið úr krókaaflamarki yfir á aflamarksskip.

Fiskistofa stöðvaði slíkar millifærslur eftir athugasemd frá ráðuneytinu sem benti á að þær samræmdust ekki lögum.

Ákvarðanir Fiskistofu voru engu að síður kærðar til ráðuneytisins, en í úrskurði sínum frá í desember síðastliðnum sagðist ráðuneytið ekki geta „fallist á það sjónarmið kæranda að breytt túlkun Fiskistofu á 15. gr. laga um stjórn fiskveiða leiði til brots á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þar sem fyrri túlkun Fiskistofu var röng“.

„Ráðuneytið bendir á að stjórnvöld eru ekki bundin af ólögmætri framkvæmd. Réttur verður ekki byggður á rangri framkvæmd laga,“ segir í úrskurðinum.

„Jafnræðisreglan veitir mönnum almennt ekki tilkall til neins þess sem samrýmist ekki lögum. Hafi efni ákvörðunar verið ólögmætt getur aðili að öðru máli því ekki krafist sambærilegrar úrlausnar með því að vísa til þeirrar ákvörðunar.“