Í ályktun sem framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands, SSÍ, hefur sent frá sér er því mótmælt að aukning verði á afla til strandveiða. Þar segir að á meðan félagsmenn innan SSÍ, sem eru launamenn allt árið hjá útgerðum þessa lands, sætta skerðingu á aflaheimildum sé stefnt að aukningu á afla til strandveiða.

„Sá afli sem veiddur er á Íslandsmiðum er í flestum tilfellum bundinn við tillögur Hafró og síðan úthlutun hins pólitíska valds, sem hefur yfirleitt verið hin sama og fiskifræðingar leggja til. Nú bregður svo við að strandveiðisjómenn heimta meiri aukningu til sín en aðrir fá. Einhvers staðar þarf að taka þá aukningu sama hvað þusað er um annað,“ segir í ályktuninni.

Verði strandveiðipotturinn aukinn gerir SSÍ þá kröfu á ríkisvaldið að aukning til almenna aflamarkskerfisins sé í sama hlutfalli. „Það er ótækt að eitt form útgerðar geti kallað eftir nánast óheftri aukningu meðan aðrir sitja eftir með minni aflaheimildir. „Rómantískar strandveiðar eiga ekki að vera rétthærri en aðrar veiðar þó nafnið sé fallegt,“ segir í ályktuninni.“

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands.
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands.

Þar segir ennfremur: „Á samfélagsmiðlunum er auglýst eftir sjómönnum til strandveiða. Í framhaldinu fær skrifstofa SSÍ hinar furðulegustu fyrirspurnir vegna hinna rómantísku strandveiða. Til dæmis hvort ekki sé til kjarasamningur fyrir strandveiðisjómenn. Sjómanna sem eru sjálfs síns herrar, atvinnurekendur og útgerðarmenn. Eiga skipin og gera út á eigin ábyrgð.“

SSÍ hafi bent mönnum á að setjast hinu megin við borðið og semja við sjálfa sig. Það sé ekki tilgangur strandveiðikerfisins að sjómenn séu leiguliðar eigenda báta sem kallast strandveiðibátar.

Ólík sjónarmið

„Ef villtustu draumar strandveiðisjómanna verða að veruleika um veiðar í 48 daga með tæplega 700 kílóa þorskafla á dag, munu aðrir útgerðarflokka blæða fyrir það með tilheyrandi afleiðingum. Ef um 800 skip verða á strandveiðum í sumar má gera ráð fyrir 26.000 tonna afla að lágmarki, jafnvel ívíð meiri. Fiskur sem er verðminni og lakara hráefni en ella. Meira er flutt út af óunnum afla á strandveiðitímabilinu,“ segir í ályktuninni.

Sjónarmið um fjölda báta og hugsanlegan hámarksafla á strandveiðivertíðinni miðað við 48 daga eru ólík. Þannig talar Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, í frétt í Fiskifréttum í gær um að gera megi ráð fyrir að aflinn verði 14-16 þúsund tonn.

Áfram segir í ályktuninni: „Ef þessar auknu heimildir verða teknar úr almenna aflamarkskerfinu er ljóst að félagsmenn félaga innan SSÍ munu missa af verulegum tekjum. Skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga dragast saman á sama tíma og ríkis- og sveitarsjóðir eru reknir með halla. Útgerðir munu binda skipin fyrr um sumarið en þær hafa gert undanfarin ár og fiskvinnslufólk verður sent heim. Þetta er það sem blasir við hinum almenna sjómanni ef strandveiðar verða auknar eins og til stendur hjá nýrri ríkisstjórn.“