Eftirspurn eftir grásleppuhrognum er mikil í ár og byrjunarverðið hærra en áður hefur þekkst. Birgðir eru engar hjá kavíarframleiðendum og þeir kappkosta að tryggja sér hráefni.
Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir mikla spennu á hrognamarkaðinum. ,,Okkur varð ljóst strax eftir vertíðina í fyrra að eftirspurn eftir hrognum yrði mikil í ár. Í fyrra stóð til að heildarveiði allra veiðiþjóðanna, sem eru Íslendingar, Kanadamenn, Grænlendingar og Norðmenn, yrði 28-30 þúsund tunnur en hún náði ekki nema 23 þúsund tunnum vegna algjörs aflabrests í Kanada," segir Örn.
Byrjunarverð fyrir tunnu af grásleppuhrognum til veiðimanna er nú 1150 evrur eða jafnvirði nálægt 200 þúsund króna og hefur aldrei verið hærra
Nánar segir frá þessu í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.