Ríkisstjórn Spánar hefur gripið til sinna ráða til þess að verja túnfiskveiðiskip sín fyrir árásum sómalskra sjóræningja á Indlandshafi. Spænsk lög leyfa ekki að hermenn séu settir um borð í fiskiskipin og því hafa verið ráðnir vopnaðir öryggisverðir frá einkafyrirtækjum til starfans.
Sjötíu öryggisverðir eru nú í þjálfunarbúðum hjá hernum en verða síðan sendir með herflugvél til Seychelles-eyja í Indlandshafi og þaðan um borð í túnfiskskipin. Spænsk yfirvöld borga helming kostnaðar við störf öryggisvarðanna en túnfiskútgerðirnar hinn helminginn, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum fis.com.
Áhöfn spænska túnfiskskipsins Alakana, 36 menn, er enn í gíslingu sjóræningja við strendur Sómalíu, en skipinu var rænt í byrjun október.