Góðar horfur eru í fiskeldi og ræktun sjávardýra á Spáni á meðan hægt hefur á vexti fiskeldis í mörgum öðrum ríkjum Evrópusambandsins að því er fram kemur í skýrslu frá ,,Hagstofu ESB”, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.

Vakin er athygli á þessari staðreynd í nýjum upplýsingum um stöðu fiskeldis árið 2010 sem spánska sjávarútvegráðuneytið og spánska fiskeldisstofnunin hafa gefið út. Þar segir að Spánn framleiði meira af eldisfiski en til dæmis lönd eins og Frakkland, Ítalía og Bretland. Þegar kemur að verðmætum sé Spánn hins vegar í fimmta sæti þar sem þeir framleiði mikið af verðminni tegundum eins og kræklingi.

Á árinu 2009 framleiddi Spánn um 268 þúsund tonn af eldistegundum sem er 6,8% aukning frá árinu áður. Megnið af þessari framleiðslu er kræklingur, eða 75%, en um 25% framleiðslunnar eru ýmsar tegundir eldisfisks.

Á Spáni eru um 5.170 eldis- og ræktunarstöðvar sem veita um 29 þúsund manns atvinnu. Um 75% þessara starfa tengjast sjóeldi. Til samanburðar má geta þess að árið 2005 störfuðu rúmlega 19 þúsund manns í greininni.

Fram kemur að á Spáni séu um 63 aðilar sem sinni rannsóknum og þróun á sviði fiskeldis og um 257 vísindamenn helgi sig þessu verkefni.