Spánskir fiskimenn sem misstu spón úr aski sínum þegar Evrópusambandið ákvað í desember síðastliðnum að framlengja ekki fiskveiðisamning ESB við Marokkó fá greiddar um 9,2 milljónir evra (um 1,5 milljarða ISK) í bætur, að því er fram kemur í frétt á fis.com.

Spánsk stjórnvöld vinna nú að því hörðum höndum að hraða því að þessar bætur verði greiddar út.

Gert er ráð fyrir að 69 skip með um 660 sjómönnum fái styrkinn. Peningarnir skiptast til helminga á milli fiskimanna á Kanaríeyjum og Andalúsíu. Hver skipverji fær 45 evrur á dag (7.300 ISK).

Jafnframt þessu þrýsta spánsk stjórnvöld á ESB um að nýr fiskveiðisamningur verði gerður við Marókkó hið allra fyrsta.