Nýframkomið frumvarp sjávarútvegsráðherra til fiskveiðilaga og áformuð hækkun veiðileyfagjalda mætir hörðum viðbrögðum í greininn. Spáð er gjaldþrotum og kjaraskerðingu nái frumvörpin fram að ganga.

Árni Bjarnason, forseti FFSÍ, segir í samtali við Fiskifréttir að frumvörpin muni hafa afgerandi kjaraskerðingu fyrir sjómenn í för með sér. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, tekur í sama streng og óttast að leigubraskið muni aukast með tilkomu leigupotta ríkisins.

"Afleiðingarnar eru þær að íslenski sjávarútvegurinn eins og við þekkjum hann núna mun verða í kaldakoli," segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

"Ég segi það umbúðarlaust að ekki munu öll fyrirtæki í smábátaútgerð standa undir þessu," segir Arthur Bogason, formaður LS um hækkun veiðigjalds.

"Í fljótu bragði sýnist mér að verið sé að þurrka út allan hagnað í greininni. Ég stórefast um að meðalskuldug fyrirtæki lifi þetta af," segir  Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar hf.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.