Norska markaðsgreiningarfyrirtækið Kontali spáir fimm prósent vexti í framboði á eldislaxi á heimsvísu á þessu ári.

Frá þessu segir á fréttasíðunni salmonbusiness.com. Þar kemur fram að ástæður þessa vaxtar samkvæmt Kontali sé aukning í lífmassa, sterk framleiðsla og minni afföll á fyrsta ársfjórðungi. Matið sé byggt á framleiðslubreytum síðastliðinna þriggja til fimm ára.

Bæting á ýmsum sviðum

Segir á salmonbusiness.com að þótt fyrirtækin telji mögulegan vöxt geta orðið nærri 11 prósent hafi spár þeirra oft verið of bjartsýnar. Álitsgjafar hins vegar spái ekki nema 2,5 til 3 prósent vexti og vísi til óvissu um magnið sem fer til slátrunar.

Aðrir þættir sem greinendur Kontali nefna í þessu samhengi eru meðal annars vannýtt framleiðslugeta, bæting í vexti laxanna, fátíðari lúsameðferðir og færri tapaðir fóðrunardagar.

Þessa má geta að spá Kontali fram til ársins 2030 hljóðar upp á 27 prósent vöxt og 40 prósent fram til ársins 2033.