Fyrstu tonnunum af þorski á vertíðinni hefur verið landað í Vesterålen í Norður-Noregi að því er fram kemur í norska sjónvarpinu.
Vesterålen er rétt norðan við Lofoten. Sjómenn á svæðinu hyggja gott til glóðarinnar og spá því að vertíðin verði ævintýraleg. Kvótinn hefur verið aukinn og sjómenn sjá fram á bestu vertíð í 40 ár.
„Skríður“ á miðin
Vertíðarþorskurinn gengur upp að strönd Norður-Noregs til hrygningar. Norðmenn kalla þennan gönguþorsk „skrei“ og er það samstofna við íslenska orðið „skríða“. Þorskurinn kemur úr Barentshafi og „skríður“ upp á grunnin til hrygningar.
Þessi þorskur er frábrugðinn þorski sem heldur sig við norsku ströndina allt árið. Hann er lengri, dekkri á lit og mjóslegnari.
Mesti þorskveiðibærinn
Norska sjónvarpið ræddi við sjómenn í bænum Øksnes í Vesterålen. Øksnes, en þar búa 4.500 manns, er sagður vera mesti þorskveiðibær Noregs, að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Sjávarútvegur þar velti um 2,5 milljörðum NOK á síðasta ári, eða 58 milljörðum íslenskra króna.