Frystitogarar hafa sótt grimmt í litla karfa að undanförnu og nemur aflinn það sem af er árinu 2010 um 2.300 tonnum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Litli karfi er einn fárra nytjafiska sem eru utankvóta en hann hefur lítið sem ekkert verið veiddur undanfarin ár.
Brimnes RE hefur veitt mest af litla karfa eða tæp 450 tonn. Hrafn Sveinbjarnarson GK kemur þar á eftir með 280 tonn og Þerney RE er í þriðja sæti með 260 tonn.
Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til við sjávarútvegsráðuneytið að afli á litla karfa fari ekki yfir 1.500 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðar á litla karfa hafa aðallega farið fram í haust og á rúmum tveim mánuðum, frá upphafi fiskveiðiársins 1. september fram til 11. nóvember, hafa veiðst um 1.680 tonn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.