Í matvælaráðuneytinu er verið að skoða hvort gera eigi fyrirtækjum í sjávarútvegi skylt að sýna fram á að ekki sé brotið gegn lögum og reglum, til dæmis um brottkast og vigtun. Þetta er partur af nefndavinnunni miklu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ýtti úr vör í sumar í von um að greiða mætti úr ýmsum helstu flækjum íslenskrar sjávarútvegsstefnu er greinilega á fleygiferð. Stefnt er að því að birta stöðuskýrslu og niðurstöður fyrir áramótin næstu, en lagafrumvörp verði tilbúin til kynningar haustið 2023 og lögð fram fullbúin til Alþingis vorið 2024.

Þriðji fundur samráðsnefndarinnar var haldinn fyrir stuttu og þann 6. október birti ráðuneytið glærukynningu frá fundinum.

Á glærukynningunni sést að á fundi samráðsnefndarinnar var farið yfir flest helstu og erfiðustu deilumálin þegar kemur að fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar er síðan m.a. að finna yfirlit yfir svonefndar „kveikjur“, en það er orð sem í þessu samhengi er notað yfir „verkefni sem mætti fara að þróa strax og koma í framkvæmd“.

Þar á meðal er verið að skoða hvort gera eigi fyrirtæki „ábyrg fyrir því að sýna fram á að farið sé eftir lögum og reglum.“ Þetta þýðir að sönnunarbyrðinni verði í reynd snúið við og sem dæmi er nefnt að fyrirtæki þurfi þá að „sýna fram á að ekki sé brottkast og að vigtun sé rétt.“

Þetta yrði þannig þveröfugt fyrirkomulag á við það sem nú er í gildi og hefur verið, sem er að ábyrgðin hefur verið á höndum eftirlitsaðila að sýna fram á brot.

Með þessari breytingu á sem sagt að bregðast við þeirri áskorun sem felst í því að eftirlitið sé „kostnaðarsamt og mannfrekt og ekki mögulegt að hafa eftirlit með öllum.“

Vefur í loftið

Vefurinn Auðlindin okkar var opnaður 4. október en þar er að finna upplýsingar um tilgang og upplegg verkefnisins, skipan starfshópa og samráðsnefndar ásamt yfirgripsmiklu gagnasafni um sjávarútveg.

Vinna er einnig hafin við kortlagningu á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Kortlagningin er unnin í samstarfi við Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands og á meðal annars að „varpa ljósi á áhrifavald eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum,“ að því er segir í glærukynningu samráðsnefndarinnar.

Nefndir og samstarfshópar vinna nú að því að leggja grunn að breytingum á lagaumhverfi sjávarútvegs. FF MYND/Þorgeir Baldursson

Samráðsnefndin er fjölmenn, eins konar yfirvettvangur fyrir fjóra minni starfshópa sem hver um sig einbeitir sér að afmarkaðri verkefnum.

Hætt við áform

Í sumar sem leið voru kynntar á Samráðsgátt stjórnvalda hugmyndir um breytt fyrirkomulag á eftirliti með hvalveiðum, sem greinilega eru á svipuðum nótum því ætlunin var að snúa við sönnunabyrðinni þar með því að láta skipstjóra hvalveiðiskipa tilnefna „dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn fyrir hvert skip“ og skuli hann „bera ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðarnar.“ Velferðarfulltrúinn skuli „halda skrá yfir allar aðgerðir er varða veiðarnar, mynda þær á myndband og skrá þær niður.“ Öllum þessum gögnum átti velferðarfulltrúinn síðan að koma til eftirlitsdýralæknis eftir hverja veiðiferð.

Þessum áformum andmælti Hvalur hf. á þeim forsendum aðallega að þau séu án lagastoðar. Þar að auki sé vandséð að þessi áform rúmist innan meðalhófsreglunnar, sem feli í sér að „stjórnvaldi er ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.“

Þegar til kom var hætt við þessi áform en Matvælastofnun falið að sjá um eftirlit með dýravelferð í hvalveiðum.