Það er ekki aðeins innan uppsjávargeirans í Noregi sem slegin eru sölumet. Hjá Norges Råfisklag, sölukerfi botnfisktegunda, hefur aldrei fyrr verið seldur meiri afli fyrir jafnhátt verð og árið 2011. Alls voru seld um 844 þúsund tonn í gegnum Norges Råfisklag á árinu að verðmæti 7 milljarðar króna (um 145 milljarða ISK). Þar af koma um 5,8 milljarðar frá norskum skipum og er þar um milljarðs króna aukningu frá árinu 2010 að ræða.
Þessar upplýsingar koma fram í fréttatilkynningu frá Norges Råfisklag. Á árinu 2011 jókst salan um 1,3 milljarða frá árinu áður, eða um 23%. Skýringin er mikið magn af þorski, ýsu og ufsa sem barst á land og hátt verð á þessum tegundum. Auk þess er farið að selja ljósátu og þörunga í gegnum sölukerfi Norges Råfisklags. Með sölunni á árinu 2011 var slegið gamalt 6,6 milljarða sölumet frá árunum 1999 og 2007.