Nýverkið lauk uppsetningu sólarsellum á þökum bygginga Hampidjan Baltic og Vonin Lithuania, dótturfyrirtækja Hampiðjunnar í borginni Siauliai í Litháen. Byggingarnar eru stórar og þökin spanna samanlagt um 31.500 fermetra. Markmiðið er að framleiða rafmagn fyrir starfsemi fyrirtækjanna og eru sólarsellurnar mikilvægt skref í átt að sjálfbærari rekstri þeirra. Siauliai er í miðju Litháen og er einn sólríkasti staðurinn í landinu og nafnið Siauliai er ævafornt og vísar til sólarinnar.
Vonin Lithuania er netagerð þar sem framleidd eru veiðarfæri og fiskeldiskvíar. Handavinna er mikil og einu vélarnar sem eru notað er eru saumavélar og stórar blakkir og tromlur til að færa til veiðarfærin og fiskeldiskvíarnar meðan unnið er að samsetningu þeirra. Vélarkostur er því takmarkaður og starfsemin fer að mestu fram á daginn meðan birtu nýtur. Gert er ráð fyrir að nýju sólarsellurnar fullnægi raforkuþörf fyrirtækisins að mestu.
15% af raforkuþörfinni
Hampidjan Baltic er hins vegar stórt og mikið framleiðslufyrirtæki með afar mikið af orkufrekum vélum til að framleiða þræði, kaðla og net. Unnið er allan sólarhringinn við framleiðsluna og því ekki hægt að nýta sólarokuna á kvöldin og nóttunni en engu að síður mun þessi nýi búnaður mæta u.þ.b. 15% af raforkuþörfinni og spara um 20 milljónir króna á ári.
Verkefnið er stutt af litháíska ríkinu, m.a. með fjármagni frá Evrópusambandinu og er hluti af víðtækri áætlun sambandsins til að draga úr raforkunotkun í álfunni. Með þessum stuðningi er áætlað að fjárfesting Hampiðjunnar í sólarorku muni borga sig upp innan þriggja ára.
Fyrir um 4 árum breyttu Hampidjan Baltic og Vonin Lithuania lýsingunni í LED ljós með svipuðum stuðningi. Hefur sú fjárfesting þegar borgað sig upp og skilar sér í lægri rafmagnsreikningum en ávinningurinn var ekki síður í betri og vandaðri lýsingu á vinnusvæðunum, sem skipir miklu máli þegar unnið er með fíngerða þræði og grannt garn. Að auki hefur einangrun bygginganna verið bætt til að minnka hitatap á veturna og varna því að of heitt verði innanhúss á sumrin en veturnir í Litháen geta verið mjög kaldir en sumrin heit.
Skiptin yfir í sólarorku marka enn einn áfangann á leið fyrirtækjanna til að bæta orkunýtni og auka sjálfbærni og til að draga úr kolefnisspori Hampiðjunnar.