Skriffinnskan ríður ekki við einteyming. Hverfisráð í London hótaði að loka einu sögufrægasta reykhúsi í London vegna kvörtunar eins manns. Ákvörðunin féll í grýttan jarðveg og eftir hörð mótmæli nágranna hefur hverfisráðið nú dregið ákvörðun sína til baka.
Reykhúsið, Walter Purkis & Sons Ltd, er frá Viktoríutímanum og hefur reykt smásíld og annan fisk í meira en en 130 ár og stendur traustum fótum í sínu hverfi. Fyrirtækið hefur lifað tímana tvenna og meðal annars stóð það af sér hörðustu loftárásir Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni.
Eigendur reykhússins voru því agndofa þegar þeir fengu bréf frá hverfisráðinu í Haringey í London þar sem þeim var tilkynnt að þeir yrðu að hætta rekstri. Kvörtun hafði borist frá einum íbúa sem bjó í blokk í nágrenninu yfir lykt frá reykhúsinu. Í bréfinu var jafnframt hótað sektum ef ekki yrði farið að fyrirmælum.
Þegar málið komst í fjölmiðla snerist almenningsálitið með reykhúsinu endar er það mikilvægur þáttur í samfélaginu. Ráðið hefur því dregið lokunarhótunina til baka og viðurkennt sérstöðu reykhússins. Farið er fram á að reykháfur fyrirtækisins verði lagfærður til að draga úr hættu á lyktarmengun.