Norsk stjórnvöld voru í fullum rétti til að refsa litháískri útgerð fyrir snjókrabbaveiðar i Smugunni, samkvæmt dómi Hæstaréttar Noregs. Annað áþekkt mál vegna snjókrabbaveiða bíður hins vegar enn dóms, og þar eru olíuauðlindir við Svalbarða í húfi.
Hæstiréttur Noregs komst í lok nóvember að þeirri niðurstöðu að norsk stjórnvöld hafi verið í fullum rétti þegar þau refsuðu litháískri útgerð og litháískum skipstjóra fyrir snjókrabbaveiðar á landgrunni Noregs í Smugunni, utan norskrar landhelgi.
Dómurinn þykir marka tímamót, en málið snerist m.a. um samspil ákvæða Hafréttarsamningsins Sameinuðu þjóðanna frá 1982 um landgrunnið við reglur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) frá 1980.
Sumarið 2016 var litháíska skipið Juros Vilkas staðið að snjókrabbaveiðum í Smugunni í Barentshafi, á svæði sem Norðmennfara með lögsögu á hafsbotni.
Litháísk stjórnvöld höfðu veitt skipinu leyfi til veiðanna á grundvelli NEAFC-samningsins, sem nær til veiða utan 200 mílna lögsögu aðildarríkja Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar (NEAFC), þar á meðal í Smugunni.
Norsk stjórnvöld töldu litháísk stjórnvöld hins vegar ekki hafa haft neina heimild til að gefa slíkt leyfi, og vísa þar í alþjóðlega hafréttarsamninginn frá 1982. Hann tryggi Norðmönnum tilkall til landgrunnsins og náttúruauðlinda þess.
Tilheyrir landgrunninu
„Þessi dómur er mjög áhugaverður,“ segir Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. „Með því áhugaverðara sem ég hef lesið lengi.“
„Síðan Smuguveiðarnar voru mest í brennidepli hér heima hafa Rússar og Norðmenn gert með sér samning 2010 um afmörkun hafsvæða, meðal annars á landgrunninu í Smugunni. En sá samningur nær ekki til svæðisins í hafrýminu fyrir ofan, það er úthaf,“ segir Bjarni Már.
„Í Hafréttarsamningnum er það þannig að strandríki nýtur svokallaðra fullveldisréttinda í landgrunninu að því er varðar rannsóknir og hagnýtingu náttúruauðlinda þess. Og það er skilgreint nokkuð nákvæmlega.“
„Til náttúruauðlindanna,“ segir nefnilega í Hafréttarsáttmálanum frá 1982, „teljast jarðefnaauðlindir og aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna ásamt lífverum í flokki botnsetutegunda.“ Og botnsetutegundir eru nánar skilgreindar þannig að þær séu verur „sem á nýtingarstigi eru annaðhvort hreyfingarlausar á eða undir hafsbotninum eða geta ekki hreyft sig nema í stöðugri snertingu við hafsbotninn eða botnlögin.“
Olía og gas búa undir
Snjókrabbinn er einmitt slík tegund, sem þarna er lýst, og tilheyrir því landgrunnsauðlindum Noregs samkvæmt Hafréttarsáttmálanum. „Noregur er búinn að fara með þetta svæði fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna og hún er búin að staðfesta tilkall Noregs til svæðisins,“ segir Bjarni Már. „Norskar reglur gilda um nýtingu þess.“ Þær reglur er að finna í norsku auðlindalöggjöfinni, havressursloven, sem réði úrslitum í dómi Hæstaréttar.
„Það er samt ekkert víst að þetta mál sé búið. Það gæti farið fyrir alþjóðlegan dómstól, og það gæti þá verið Alþjóðadómstóllinn í Haag, Hafréttardómstóllinn eða alþjóðlegur gerðardómur,“ segir Bjarni Már.
Síðan hefur annað mál verið fyrir norskum dómstólum og endar líklega fyrir Hæstarétt Noregs, og það mál snýst líka um snjókrabbaveiðar lettneskra sjómanna. Ekki í Smugunni samt heldur við Svalbarða.
„Og það mál er púðurtunna,“ segir Bjarni Már. „Það snýst nefnilega um mismunandi túlkanir á Svalbarðasamkomulaginu frá 1920, m.a. um lögsögu Noregs og það sem mætti kalla jafnræðisreglu samningsins. Og þótt þetta snúist um réttindi til snjókrabbaveiða þá snýst þetta líka um réttarstöðuna varðandi nýtingu á olíu- og gasauðlindum. Það er stóra málið sem býr að baki þessu.“