Margir Bretar, að minnsta kosti þeir sem hafa ríka umhverfisvitund, fagna því nú að geta borðað þorsk með góðri samvisku eftir að alþjóðlega vottunarstofan Marine Stewardship Council, MSC, hefur gefið á það grænt ljós.
Skosk og ensk fiskiskip, sem stunda þorskveiðar í Norðursjó, hafa nefnilega fengið hina eftirsóttu MSC-vottun sem staðfestir að veðarnar séu sjálfbærar.
Þar með geta Bretar skóflað í sig þjóðarréttinum, fiski og frönskum, án þess að vera með í maganum einhvern nagandi ótta um að fiskveiðarnar hafi ekki verið sjálfbærar.
Þetta er mikill viðsnúningur því upp úr síðustu aldamótum hrundi þorskstofninn í Norðursjó vegna ofveiði og voru veiðiheimildir verulega skertar í kjölfarið.
Þegar veiðar á Norðursjávarþorski voru í hámarki á miðjum áttunda áratugnum náðu sjómenn 270 þúsund tonnum úr hafinu. Aldarfjórðungi síðar, á árunum upp úr aldamótum, var þorskaflinn kominn niður fyrir 50 þúsund tonn og náði lágmarki árið 2006.
Eftir það voru settar strangar reglur um veiðarnar, með samvinnu við bæði breska og norska sjómenn og það virðist núna loksins vera að skila sér í eitthvað stærri stofni.
Árið 2015 sá Alþjóðahafrannsóknarráðið, ICES, sér fært að mæla með dálítilli veiðiaukningu, tæplega 50 þúsund tonnum og á næsta ári leyfir ráðið veiðar upp á tæp 60 þúsund tonn.
Bretar borða nærri 70 þúsund tonn af þorski á hverju ári. Megnið af honum hefur verið fluttur inn frá Noregi og Íslandi, en Íslendingar hafa verið að selja þorsk til Bretlands fyrir ríflega 20 milljarða á ári.
Svipuð þróun hefur síðan átt sér stað í Írlandshafi, sem er á milli Írlands og Bretlands. ICES hefur nú eftir margra ára veiðibann gefið grænt ljós á þúsund tonna afla á næsta ári, sem ekki er mikið en þó í áttina.