Veiðar Argentínumanna á smokkfiski hafa hrunið á þessu ári. Sláandi tölur um samdrátt í þessum veiðum voru kynntar á ráðstefnu nýlega, að því er fram kemur á vefnum undrecurrentnews.com.

Veiðar Argentínu á smokkfiski árið 2016 nema aðeins rétt rúmum 50 þúsund tonnum. Þá er afli við Falklandseyjar rúm 2 þúsund tonn. Árið 2015 var veiðin hins vegar tæp 130 þúsund tonn við Argentínu og tæp 360 þúsund tonn við Falklandseyjar. Þessi samdráttur hefur leitt til mikilla verðhækkana á smokkfiski og óstöðugleika á markaðnum. Verðið var um 1.000 dollarar á tonnið árið 2015 (114 þúsund ISK) en það hefur næstum tvöfaldast árið 2016.

Helsti markaður fyrir argentínskan smokkfisk er í Kína. Fram kom á ráðstefnunni að mikill fjöldi erlendra skipa, einkum kínverskra, væri að smokkfiskveiðum utan lögsögu Argentínu. Þessi skip stundi ofveiði sem hafi haft verulega slæm áhrif á smokkfiskstofninn.

Smokkurinn við Argentínu er veiddur á handfæri á stórum skipum. Smokkurinn er meðal annars seldur sem beita og íslenskir línubátar nota hann í bland við aðra beitu.