Í janúar til mars á þessu ári var Cabo de Hornos við veiðar á smokkfiski fyrir utan 200 sjómílur út af Argentínu. Veiðin gekk vel, að sögn Þórs, en þarna heldur sig gríðarlega stór floti skipa frá mörgum löndum við veiðar í óþökk Argentínumanna. Hér er sagt frá ævintýrum Þórs Einarssonar skipstjóra í Chile. Þriðji þáttur.
Þarna eru skip frá Kína, Japan, Suður-Kóreu, Spáni auk Chile og margra fleiri landa, að minnsta kosti 100 togarar eða fleiri. Landgrunnið fyrir utan 200 sjómílurnar úti af Argentínu er stórt svo ekki skapast neitt öngþveiti við veiðarnar. En enginn fær að landa í Argentínu. Þór landar í Chile en Spánverjarnir í Uruguay.
„Argentínumenn telja sig eiga þetta hafsvæði utan 200 mílnanna. Landhelgisgæsla þeirra er fram og til baka þarna á línunni og menn eru í vondum málum ef þeir fara inn fyrir. Þeir myndu líklega skjóta Kínverjana í kaf án þess að hugsa sig um tvisvar. Við siglum í gegnum landhelgi þeirra og um Magellansundið þegar við förum heim til að landa og gefum þeim upp staðsetningu tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Það er mikill straumur í Magellansundinu en það hefur þó ekki áhrif á siglinguna. Það eru víða kanalar líka í Chile og það tekur til dæmis átta til tíu tíma að komast út á rúmsjó frá Chacabuco. Þarna er líka allt skógi vaxið milli fjalls og fjöru.“
Reglulega til Íslands
Eftir öll þessi ár í Chile talar Þór að sjálfsögðu reiprennandi spænsku en heimamenn segja nú samt að hann tali með skrítnum hreim. Hann er líka kjarnyrtur og talar óaðfinnanlega móðurmálið enda kemur hann reglulega til Íslands þar sem hann á uppkomna dóttur af fyrra hjónabandi.
„Ég lít alltaf á mig sem Íslending og er ekki einu sinni með chileskt vegabréf. Ég nota bara mitt íslenska vegabréf þegar ég ferðast. Það er besta vegabréfið.“
Verið er að setja vél sömu gerðar og upphaflega var í Cabo de Hornos nema hvað hún er nokkrum kynslóðum yngri. Þetta er vél frá MAN. Upprunalega vélin var metin 3.000 hestöfl en hún var mæld upp og var í lokin komin niður í um 1.800 hestöfl og gaf ekki meira frá sér. Nýlega keypti Friosur frystitogarann Langenes frá Noregi og breytti honum í ísfisktogara. Skipið heitir nú Friosur XI og er nýlega komið í drift. Þetta er 56 metra langur togari, 12,4 metrar á lengd og smíðaður 1986 í Liaaen skipasmíðastöðinni í Noregi. Útgerðin hófst í ágúst síðastliðnum og hefur, að sögn Þórs, gengið vel á honum. Á honum er chileskur skipstjóri en Þór og Grímur Eiríksson, útgerðarstjóri Friosur, eru einu Íslendingarnir sem nú starfa hjá fyrirtækinu.
Honda Goldwing 1.800 cc
Nú þegar verið er að skipta um vél í Cabo de Hornos og Þór hefur nægan tíma fyrir stafni heldur hann gjarnan í langferðir á mótorhjólinu sínu, Honda Goldwing 1.800 cc. Hann keypti það árið 2019 og er búinn að hjóla á þriðja þúsund kílómetra. Þetta er þungt og stórt hjól og hentugt til lengri ferðalaga. Þór fór á öðru mótorhjóli sem hann átti áður til Perú um árið og var í fyrra í tíu daga í Argentínu að þvælast á hjólinu. Hann ferðast oft einn en nú hefur sonur hans undanfarin misseri slegist í för með honum á sínu mótorhjóli. Þegar fer að halla í vorkomuna hérna á landinu bláa leggur Þór mótorhjólinu og tekur við stýrinu á Cabo de Hornos sem þá verður komið með nýja vél. Þar heldur hann áfram að bera á land 500 tonn af afurðum í hverri löndun og leggur sitt af mörkum til gjaldeyrisöflunar í Chile.