Afbrigði ISA-veirunnar sem veldur blóðþorra í laxi hefur nú verið staðfest í sýnum sem tekin voru í laxeldisstöð við Hamraborg og Svarthamarsvík í Berufirði í síðustu viku.
Fiskeldi Austfjarða hefur í samvinnu við Matvælastofnun nú þegar virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía. Þar með mun allur Berufjörður tæmast fyrir laxi og fara í eldishvíld, líkt og í Reyðarfirði þar sem veiran greindist fyrst.
„Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa fjörðinn fyrir ofangreindu veirusmiti,“ segir í frétt Matvælastofnunar. Allt frá því að fyrsta greining ISA-veirunnar átti sér stað úr laxi í sjókví við Gripalda í Reyðarfirði í lok nóvember 2021 hefur ströng vöktun og umfangsmiklar sýnatökur átt sér stað á öðrum eldissvæðum á Austfjörðum.
Eins og fram kom í frétt Matvælastofnunar 29. apríl sl., var greining á meinvirku afbrigði ISA-veirunnar staðfest á ný í einni kví við Sigmundarhús. Öllum laxi á þeirri staðsetningu var umsvifalaust fargað. Þann 22. maí sl. var sama afbrigði veirunnar einnig staðfest í laxi við Vattarnes í Reyðarfirði og eru framkvæmdir við slátrun hafnar. Í síðustu viku maí mánaðar vaknaði einnig grunsemd um tilveru veirunnar í laxi í Berufirði, fyrst við Hamraborg og nokkrum dögum síðar einnig við Svarthamarsvík.
Lokaniðurstöður voru að berast frá rannsóknarstofu þar sem tilvist meinvirks afbrigðis veirunnar er staðfest. Við Hamraborg eru í eldi um 890.000 laxar í sjö sjókvíum (2-3,2 kg) og við Svarthamarsvík eru í eldi um 1.099.000 laxar í tólf sjókvíum (0,3-1,4 kg).