Slysavarnafélagið Landsbjörg vinnur nú að viðamiklu verkefni með endurnýjun allra 13 björgunarskipa sinna á næstu 10 árum. Félaginu barst óvæntur liðsstyrkur á dögunum.

Í frétt frá Landsbjörgu segir frá því að ensku frímúrarastúkurnar United Lodge of Prudence No. 83 og Belgrave Chapter No. 121 ákváðu að styrkja nýsmíðasjóð björgunarskipa Landsbjargar um tvö þúsund pund á fundum sínum í lok september sl.  Var styrkur þessi veittur í tengslum við heimsókn íslenskra frímúrara á fundi áðurnefndra stúkna en upphæðin nemur rúmlega 360.000 íslenskra króna.

Núverandi skip félagsins eru komin vel til ára sinna þar sem meðalaldur þeirra eru rúm 35 ár. Skipin voru á sínum tíma keypt á gjafverði af Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökunum (The Royal National Lifeboat Institution) og telur Landsbjörg það því táknrænt að fyrstu styrkir sem berast í nýsmíðasjóð björgunarskipanna skuli koma frá Bretlandi.

Smíði hefst í nóvember

Búið er að semja um smíði á fyrstu þremur björgunarskipunum sem smíðuð verða í Finnlandi og afhent 2022 og 2023. Hvert skip kostar 285 milljónir króna en helmingur þess kostnaðar kemur úr ríkissjóði. Safnað hefur verið í nýsmíðasjóð björgunarskipa í langan tíma en nú er smíðin að hefjast og því komið að fyrstu greiðslum.

  • Félagar í Landsbjörgu veittu styrknum viðtöku úr hendi enskra. Aðsend mynd

Styrkir sem þessir eru því kærkomnir fyrir verkefnið, að sögn Landsbjargar.

„Sérstaklega löng og ríkuleg hefð er fyrir styrkjum samtaka eins og frímúrara til reksturs og útgerðar björgunarskipa í Bretlandi og er því allnokkur heiður fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg að þessar tvær stúkur skuli hafa tekið ákvörðun um að styðja þetta verðuga verkefni félagsins sem er ætlað til að auka öryggi sjófarenda og annarra við Ísland til muna,“ segir í tilkynningu félagsins sem vill koma sérstöku þakklæti á framfæri til þeirra íslensku frímúrara sem komu að málinu ásamt þakklæti til meðlima United Lodge of Prudence og Belgrave Chapter.