Á dögunum var gengið frá samningi milli Slippsins Akureyri og fiskvinnslunnar Hólmaskers í Hafnarfirði um smíði og uppsetningu á nýrri handflökunarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í framleiðslu DNG fiskvinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. Línan er hönnuð og smíðuð af starfsmönnum Slippsins í Grindavík og er áformað að hún verði sett upp í vinnslustoppi hjá Hólmaskeri í kringum jólin.

Sérhæfð ýsuvinnsla

Fiskvinnslan Hólmasker sérhæfir sig í vinnslu á ýsu sem að stærstum hluta fer sem frystar afurðir á Bandaríkjamarkað en hlutur ferskra ýsuafurða hefur þó smám saman farið vaxandi. Fyrirtækið vinnur úr um 4.000 tonnum af ýsu á ári en mest af hráefninu kemur frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er meirihlutaeigandi fyrirtækisins en Albert Erluson, framkvæmdastjóri, á fjórðungshlut í Hólmaskeri.

Tíu handflakarar og aukin afköst

Um 90% hráefnisins hjá Hólmaskeri er handflakað og verður nýja handflökunarlínan með 10 vinnustöðvum í stað 8 í núverandi línu.

„Handflökunarlínan okkar í dag er orðin gömul og slitin og kominn tími á endurnýjun hennar. Ég sá líka tækifæri til að fjölga flökunarstöðvum með nýrri línu, bæði til að auka afköst og líka til að mæta þeirri þróun sem hefur verið að undanförnu í ýsunni að fiskurinn er aðeins smærri en á síðustu árum,“ segir Albert. Fyrr á þessu ári tók Hólmasker í notkun nýjan Promas framleiðsluhugbúnað frá Slippnum sem mun nýtast að fullu í að halda utan um framleiðslu, gæði og afköst í vinnslunni á nýju handflökunarlínunni.

„Nýja handflökunarlínan er í reynd þriðja verkefnið sem Slippurinn vinnur fyrir okkur hér í Hólmaskeri og í ljósi góðrar reynslu af þeirra hönnun og framleiðslu lá beint við að semja við fyrirtækið um nýju línuna,“ segir Albert.

Farsælt samstarf með Hólmaskeri

Óli Björn Ólafsson, sölumaður hjá starfsstöð Slippsins í Grindavík segir hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni fyrir Hólmasker koma í beinu framhaldi af þróun á hugbúnaðarlausn í Promas framleiðsluhugbúnaðinum sem Slippurinn Akureyri framleiðir.

„Upphaflega þróuðum við Promas hugbúnaðarlausn á vormánuðum 2023 til að nota við heilfiskflokkrara sem DNG framleiddi fyrir viðskiptavin. Kerfið heldur utan um allar framleiðsluupplýsingar vinnslunnar og mun nú með sama hætti halda utan um fjölbreyttar upplýsingar fyrir nýju handflökunarlínuna hjá Hólmaskeri. Með kerfinu er hægt að kalla fram allar þær upplýsingar sem stjórnendur þurfa á að halda í daglegri framleiðslu fyrirtækisins,“ segir Óli Björn.

„Við höfum átt mjög farsælt samstarf við Hólmasker í verkefnum síðustu tvö ár og erum mjög þakklátir fyrir þá trú og traust sem fyrirtækið sýnir okkur í framleiðslu fiskvinnslubúnaðar og núna í hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni. Starfsmenn Slippsins í Grindavík búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hér tökumst við á við mjög krefjandi verkefni í þróun og framleiðslu vinnslubúnaðar, auk þess að þjónusta vinnslurnar fljótt og vel þegar á þarf að halda,“ segir Óli Björn.

Framleiðsla á nýju handflökunarlínunni hefst strax á næstu dögum og vikum og í framhaldinu annast starfsmenn Slippsins í Grindavík uppsetningu hennar í húsnæði Hólmaskers.

Á dögunum var gengið frá samningi milli Slippsins Akureyri og fiskvinnslunnar Hólmaskers í Hafnarfirði um smíði og uppsetningu á nýrri handflökunarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í framleiðslu DNG fiskvinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. Línan er hönnuð og smíðuð af starfsmönnum Slippsins í Grindavík og er áformað að hún verði sett upp í vinnslustoppi hjá Hólmaskeri í kringum jólin.

Sérhæfð ýsuvinnsla

Fiskvinnslan Hólmasker sérhæfir sig í vinnslu á ýsu sem að stærstum hluta fer sem frystar afurðir á Bandaríkjamarkað en hlutur ferskra ýsuafurða hefur þó smám saman farið vaxandi. Fyrirtækið vinnur úr um 4.000 tonnum af ýsu á ári en mest af hráefninu kemur frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er meirihlutaeigandi fyrirtækisins en Albert Erluson, framkvæmdastjóri, á fjórðungshlut í Hólmaskeri.

Tíu handflakarar og aukin afköst

Um 90% hráefnisins hjá Hólmaskeri er handflakað og verður nýja handflökunarlínan með 10 vinnustöðvum í stað 8 í núverandi línu.

„Handflökunarlínan okkar í dag er orðin gömul og slitin og kominn tími á endurnýjun hennar. Ég sá líka tækifæri til að fjölga flökunarstöðvum með nýrri línu, bæði til að auka afköst og líka til að mæta þeirri þróun sem hefur verið að undanförnu í ýsunni að fiskurinn er aðeins smærri en á síðustu árum,“ segir Albert. Fyrr á þessu ári tók Hólmasker í notkun nýjan Promas framleiðsluhugbúnað frá Slippnum sem mun nýtast að fullu í að halda utan um framleiðslu, gæði og afköst í vinnslunni á nýju handflökunarlínunni.

„Nýja handflökunarlínan er í reynd þriðja verkefnið sem Slippurinn vinnur fyrir okkur hér í Hólmaskeri og í ljósi góðrar reynslu af þeirra hönnun og framleiðslu lá beint við að semja við fyrirtækið um nýju línuna,“ segir Albert.

Farsælt samstarf með Hólmaskeri

Óli Björn Ólafsson, sölumaður hjá starfsstöð Slippsins í Grindavík segir hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni fyrir Hólmasker koma í beinu framhaldi af þróun á hugbúnaðarlausn í Promas framleiðsluhugbúnaðinum sem Slippurinn Akureyri framleiðir.

„Upphaflega þróuðum við Promas hugbúnaðarlausn á vormánuðum 2023 til að nota við heilfiskflokkrara sem DNG framleiddi fyrir viðskiptavin. Kerfið heldur utan um allar framleiðsluupplýsingar vinnslunnar og mun nú með sama hætti halda utan um fjölbreyttar upplýsingar fyrir nýju handflökunarlínuna hjá Hólmaskeri. Með kerfinu er hægt að kalla fram allar þær upplýsingar sem stjórnendur þurfa á að halda í daglegri framleiðslu fyrirtækisins,“ segir Óli Björn.

„Við höfum átt mjög farsælt samstarf við Hólmasker í verkefnum síðustu tvö ár og erum mjög þakklátir fyrir þá trú og traust sem fyrirtækið sýnir okkur í framleiðslu fiskvinnslubúnaðar og núna í hönnun og framleiðslu á handflökunarlínunni. Starfsmenn Slippsins í Grindavík búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hér tökumst við á við mjög krefjandi verkefni í þróun og framleiðslu vinnslubúnaðar, auk þess að þjónusta vinnslurnar fljótt og vel þegar á þarf að halda,“ segir Óli Björn.

Framleiðsla á nýju handflökunarlínunni hefst strax á næstu dögum og vikum og í framhaldinu annast starfsmenn Slippsins í Grindavík uppsetningu hennar í húsnæði Hólmaskers.