Umtalsverð viðskipti hafa verið með makrílkvóta innanlands. Hafa margar smærri útgerðir séð sig knúnar til að skipta þeim fyrir aðrar tegundir eða selja þær stóru uppsjávarútgerðunum. Ólíklegt er að makríll gangi upp að landinu sem smærri bátarnir gætu veitt og er þetta annað árið í röð sem svo er ástatt.

„En eins og ég hef sagt áður þá er makríllinn óútreiknanlegur og erfitt að spá nokkru til framtíðar í þeim efnum,“ segir Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa SF og formaður Félags makrílveiðimanna.

Félag makrílveiðimanna er hagsmunasamtök útgerða sem stunda makrílveiðar með krókum. Í félaginu eru 30 lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki sem veiða flest á minni bátum nærri landi. Flest þeirra eru með einhvern kvóta í öðrum tegundum. Unnsteinn segir að makríll hafi komið sér vel fyrir kvótalitlar útgerðir þegar hann veiddist hér upp við landið. Margir makrílveiðimenn lögðu á sínum tíma í talsverðar fjárfestingar til að geta stundað veiðarnar og sagði Unnsteinn að líklega væru flestir fyrir löngu búnir að fiska upp í þann kostnað. Sjálfur fór hann að gera út á makríl árið 2008 og þegar mest var voru makrílveiðarnar hátt í 25% af veltunni hjá hans útgerð, Erpi ehf., sem gerir út Sigga Bessa SF.

Fyrir Landsrétt í haust

„Það var talsvert högg fyrir reksturinn þegar makríllinn lét ekki sjá sig og núna hef ég látið frá mér heimildirnar í skiptum fyrir þorskkvóta. Þetta gerist auðvitað líka í ljósi 13% niðurskurðar í þorskheimildum á næsta fiskveiðaári og það var ljóst að margir eru í þeirri stöðu að þurfa eitthvað meira af heimildum til að fylla upp í árið. Það hafa margir aðrir sem voru í svipuðum sporum og ég látið frá sér makrílkvóta. Stóru útgerðirnar hafa verið að kaupa þessar heimildir í beinum viðskiptum eða með skiptum fyrir aðrar tegundir,“ segir Unnsteinn.

Hann segir að úthlutun úr sérstökum makrílpotti hafi einnig haft neikvæð áhrif því til þess að fá úthlutun úr honum þurftu menn fyrst að klára að veiða sínar heimildir. Margir sáu þá ekki mikinn tilgang í því að halda í sínar heimildir.

„Ég veit ekki hve hátt hlutfall af þessum kvóta hefur færst yfir til stórútgerðanna en þetta er í takt við þá þróun sem hefur orðið alls staðar að sífellt færri fyrirtæki ráða yfir heimildunum.“

Félag makrílveiðimanna höfðaði í byrjun árs 2020 mál gegn íslenska ríkinu vegna kvótasetningar á makríl vorið 2019. Við kvótasetninguna töpuðu smærri bátar um helming af sínum kvóta til stóru uppsjávarskipanna. Takmarkaðri réttindi urðu einnig til framsals á þeim kvóta sem varð eftir hjá minni skipunum en þeim stærri. Við kvótasetninguna var einnig sett inn ákvæði sem heimilar sjávarútvegsráðherra að taka ónýttan kvóta af smærri bátum á hverju ári án endurgjalds og færa hann til stærri skipa. Þá hafi í samþykktu frumvarpi sjávarútvegsráðherra verið miðað við rúmlega þrefalt lengri aflareynslutíma en gildandi lög um veiðar á deilistofnum kveði á um. Félagið tapaði málinu í héraði en áfrýjaði því og verður það tekið fyrir í Landsrétti í haust.