Aflaverðmæti hjá Bárði SH, sem er smábátur í aflamarkskerfinu, nam um 58 milljónum í janúarmánuði. Aflinn í mánuðinum var um 157 tonn miðað við slægt, megnið þorskur eða 153 tonn. Meðalverðið var 369 krónur á kíló miðað við slægt. Þrátt fyrir erfiða tíð var hart sótt og fór Bárður í 23 róðra í mánuðinum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Árangur Bárðar SH er sérstaklegar góður þótt hærri tölur hafi sést hjá smábáti, t.d. hjá krókaaflamarksbátnum Tryggva Eðvarðs SH í janúar í fyrra. Hann skilaði þá um 75 milljóna króna aflaverðmæti sem er algert met. ,,Bárður SH telst til smábáta þótt hann sé skráður í aflamarkskerfinu og við erum aðeins þrír um borð. Við veiðum reyndar í net en er ekki ágætt að netakarlarnir komist einu sinni svolítið á blað til að sýna það að smábátaútgerð snýst nú ekki eingöngu um krókana,“ sagði Pétur Pétursson, útgerðarmaður og skipstjóri á Bárði SH, í samtali við Fiskifréttir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.