Afli smábáta skilaði svipuðum útflutningstekjum árið 2010 og allur uppsjávarafli í loðnu, síld, makríl og kolmunna, að því er fram kom í skýrslu sem Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, flutti á aðalfundi LS.

Heildarafli smábáta á fiskveiðiárinu 2010/2011 varð 70 þúsund tonn, mest þorskur 39.039 tonn, ýsa var 14.087 tonn, steinbítur 5.167 tonn og ufsi 4.066 tonn. Þorskafli trillukarla var 22% af heildarþorskafla, um 27% af ýsuafli og 44% af steinbítsafla.

Örn sagði að heildaraflaverðmæti smábáta árið 2010 hefði numið 23 milljörðum króna sem gæfi 46 milljarða í útflutningsverðmæti. Til samanburðar nefndi hann að heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða 2010 hefði verið 220 milljarðar. Þá gat hann þess að allur uppsjávarafli íslenskra skipa hefði skilað um 45 milljörðum í útflutningstekjur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.