Landssamband smábátaeigenda (LS) vinnur nú að gagna- og upplýsingaöflun varðandi framhald síldveiða smábáta í Breiðafirði. Verði niðurstaðan jákvæð mun félagið krefjast þess að smábátar fái að nýta það sem eftir er af kvótanum sem þeir höfðu til veiða innan brúar í Kolgrafafirði á almennu veiðisvæði á Breiðafirði, segir í frétt á vef LS .
Sem kunnugt er heimilaði atvinnuvegaráðuneytið hinn 22. nóvember síðastliðinn síldveiðar smábáta í firðinum, allt að 1.300 tonnum, á þeirri forsendu að veiðarnar gætu bjargað verðmætum. Rétt fyrir áramótin tilkynnti ráðuneytið að um frekari úthlutun í Kolgrafafirði yrði ekki að ræða en tekið fram að þær aflaheimildir sem þegar hefði verið úthlutað fram að þessu samkvæmt reglugerðinni í nóvember og kynnu að vera ónýttar, héldu gildi sínu og yrði hægt að nýta þær þótt nýjum úthlutunum væri hætt.
LS lýsir undrun sinni á því að Hafrannsóknastofnun skuli nú telja að síldveiðar í firðinum skapi „óþarfa skark í stofninum“ sem „veldur því að síldin þarf sífellt að eyða meiri orku en ella sem getur haft áhrif á möguleika hennar að lifa af veturinn“. LS bendir á að aðeins sé liðinn mánuður síðan smábátar hafi verið kallaðir til veiða þar svo bjarga mætti verðmætum.