„Það er mín skoðun að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra eigi nú þegar að tilkynna um heildarafla makríls í íslenskri lögsögu. Hann eigi að byggja ákvörðun sína á að við veiðum 11,9% af heildaraflanum eða 140 þús. tonn. Jafnframt er nauðsynlegt til að styrkja ákvörðunina að tilkynna að 12% heildaraflans verði ætlaður til færaveiða smábáta.“

Þetta segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í frétt á vef samtakanna . Samkvæmt tillögu Arnar yrði makrílkvóti smábáta þá 16.800 tonn. Í fyrra stunduðu um 100 smábátar færaveiðar á makríl og nam afli þeirra 4.700 tonnum.

„Færaveiddur makríll er að öllu jöfnun nokkru verðmætari en sá trollveiddi og þá er markaður fyrir hann einnig greiðari.  Veiðarnar umhverfisvænar og gríðarleg vinna sem fylgir þeim í landi.  Mannlíf hinna dreifu byggða tekur kipp þegar makrílveiðar smábáta eru annars vegar,“ segir Örn.