Mikill þrýstingur hefur myndast á sjávarútvegsráðherra um að auka veiðiheimildir á svæði D um 200 tonn, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda . Svæðið nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar. Eins og fram hefur komið í fréttum var hlutur svæðisins skertur um þennan tonnafjölda nú í ár og tonnin flutt yfir á önnur svæði á þeirri forsendu að illa hefði gengið að veiða á D-svæði undanfarin ár. Nú bregður svo við að aflabrögð hafa verið góð á D-svæðinu í ár og nægðu aflaheimildirnar aðeins í fjóra daga í júlímánuði.
Flest svæðisfélög LS hafa ályktað um málefnið og nú eru sveitarfélög einnig að bætast í þann hóp. Opið bréf og áskoranir hafa verið sendar til þingmanna Suðurkjördæmis og ráðherra. Þá hefur stjórn LS ályktað um málefnið og sent frá sér áskoranir til sjávarútvegsráðherra sem fylgt hefur verið eftir á fundum með ráðherra.
Fundað með ráðherra
Í fréttinni á vef LS segir að á fundi LS með Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegsráðherra um strandveiðar síðastliðinn fimmtudag hafi ráðherra ítrekað skilning sinn á málefninu. Gangur veiðanna ekki orðið eins og hann hefði gert ráð fyrir þegar hann hefði ákveðið að skerða veiðiheimildir svæðis D um 200 tonn.
LS ítrekaði kröfur sínar í málinu. Brýnt væri að gera strandveiðar að atvinnugrein sem smábátaeigendur um land allt gætu stólað á. Auka þyrfti veiðiheimildir úr níu í ellefu þúsund tonn þannig að tryggt væri að ekki komi til stöðvunar veiða í upphafi eða miðjum mánuði. Ekki væri verið að fara fram á neinar breytingar á kerfinu sjálfu.