Í vikunni færðu starfsmenn VÍS Slysavarnaskóla sjómanna tíu björgunargalla að gjöf. Gallarnir frá VÍS eru nú orðnir 60 á sex árum og segir Hilmar Snorrason skólastjóri að þessi árlega gjöf skipti miklu máli við æfingar og kennslu. „Það er mjög kærkomið að fá nýja galla á hverju ári. Þeir eru í stanslausri notkun að heita má, enda fáum við um 2.500 nemendur árlega. VÍS hefur stutt dyggilega við starfsemi skólans um langt skeið og samstarfið verið gott.“

Fram kemur í frétt frá VÍS að á fyrsta áratug síðustu aldar hafi að jafnaði 60 sjómenn látist ár hvert hér við land. Þótt þetta hafi  gjörbreyst er engu að síður mikið verk að vinna með tilliti til vinnuslysa um borð. Í fyrra var 201 slys á sjómönnum tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands. Það jafngildir því að tuttugasti hver sjómaður hafi slasað sig á síðasta ári.

Tölurnar eru verri ef talið er frá árinu 2000 til 2014. Þá var 4.601 vinnuslys til sjós tilkynnt Sjúkratryggingum eða að meðaltali 306 á ári. Það svarar til þess að 7% allra sjómanna hafi slasast ár hvert miðað við núverandi fjölda. Með stuðningi sínum við Slysavarnaskóla sjómanna leggur VÍS lóð á vogarskálarnar til að auka öryggi íslenska flotans.

------