Á ársfundi Fiskebåt, samtaka norskra útvegsmanna, sem nú stendur yfir, hafa fulltrúar komið í pontu hver á fætur öðrum til þess að hvetja norska sjávarútvegsráðherrann til þess að hætta frekari viðræðum við Íslendinga í makríldeilunni.
„Við óttumst að norsk stjórnvöld semji af sér milljarðaverðmæti til Færeyja og Íslands,“ sagði einn ræðumanna, Per Magne Eggesö. Hann sagði að réttmætir kvótar Noregs hefðu meðal annars verið forsendan fyrir endurnýjun norska nótaflotans á síðustu árum. Fleiri tóku undir orð hans.
Í umræðunum sagði Elisabeth Aspaker sjávarútvegsráðherra Noregs: „Við skulum hafa eitt á hreinu. Það er ekki inni í myndinni að Íslendingar fái leyfi til að veiða makríl í norskri lögsögu.“
Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.