Slippurinn Akureyri vinnur nú af krafti að smíði nýs vinnsludekks fyrir fiskiskipið Hildi SH 777, sem er í eigu Hraðfrystihúss Hellissands hf.

„Smíðin á vinnslubúnaðinum hefur gengið vel og við stefnum á að skipið verði klárt fyrir páska segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. „Starfsfólk Hraðfrystihússins hafa lagt fram mikið af gagnlegum ábendingum í hönnunarferlinu sem skipta sköpum fyrir lokaútfærsluna."

Hildur SH 777, sem var smíðuð í Danmörku árið 2019, er 33,25 metra löng og 9,4 metra breið. Þetta öfluga skip er sérhannað fyrir bæði tog- og dragnótaveiðar og gegnir lykilhlutverki í bolfiskveiðum fyrirtækisins.

Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri Hraðfrystihúss Hellissands, segir miklar vonir bundnar við nýja vinnsludekkið: „Við búumst við góðri aukningu í afköstum og betri nýtingu aflans. Samstarfið við Slippinn Akureyri hefur gengið afar vel og við hlökkum til að hefja veiðar með nýjum vinnslubúnaði."

Magnús Blöndal og Örvar Ólafsson.
Magnús Blöndal og Örvar Ólafsson.

Fjárfestingin í nýja vinnsludekkinu samræmist framtíðarsýn Hraðfrystihúss Hellissands um sjálfbæra og hagkvæma vinnslu sjávarafurða, sem hefur einkennt starfsemi fyrirtækisins í meira en sjö áratugi.

Slippurinn Akureyri hefur áratuga reynslu í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar fyrir fiskiskip og leggur áherslu á gæðalausnir sem styðja við umhverfisvæna og arðbæra útgerð.