Ýmislegt kemur á óvart á fjarlægum miðum. Það mátti Óli Björn Björgvinsson úr Grindavík reyna á þessu  árinu þegar hann var skipstjóri á línubátnum Ocean Breeze (ex Rifsnes SH) á miðunum við Nýfundnaland.

Í jólablaði Fiskifrétta segir Óli Björn frá reynslu sinni og hér grípum við niður í frásögninni þar sem greint er frá örmjóum, slímugum ránfiski sem étur þorskinn að innan.

Fyrsta lögnin var sextán rekkar. Byrjað var að draga eftir u.þ.b. þrjá tíma og það var strax mikil veiði sem fór svo minnkandi þegar leið á dráttinn. Daginn eftir lagði Óli Björn færri rekka og það var nánast engin veiði. Þannig gekk þetta þar til hann fór að leggja einungis tvo rekka og það mokveiddist.

Skýringin kom fljótlega í ljós. Örmjór en kjaftstór ránfiskur sem er eins og áll í laginu og slímugur í þokkabót. Heimamenn hafa ekki annað orð yfir skepnuna en "slimy bastard". Kvikyndið ræðst á fiskinn sem er á línunni, treður sér í gegnum tálknin og hættir ekki fyrr en hann hefur étið fiskinn innan frá. Þeir voru því oft að fá einungis hausinn, beinagarðinn og roðið af fisknum upp með línunni. Stundum kom líka upp fiskur með stútfullan búkinn af þessari óværu.

Á línuveiðum á Nýfundnalandsmiðum um borð í Ocean Breeze.
Á línuveiðum á Nýfundnalandsmiðum um borð í Ocean Breeze.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Af þessari ástæðu lögðu þeir að hámarki tíu rekka, en oftast 6-7 rekka, fyrstu þrjá mánuðina. "Svo fórum við bara tafarlaust í að draga. Annað hvort kom fiskur upp með línunni eða tómir krókar með ekki snefil af beitu. Þarna fæst því ekkert á legunni eins og gerist hérna heima."