Slakri humarvertíð er að ljúka. Aðeins eitt skip er enn á veiðum, Jón á Hofi ÁR, og er hann á lokametrunum. Alls hafa veiðst um 1.400 tonn af humri sem er svipaður afli og í fyrra en mun minna en árið 2014. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

„Vertíðin byrjaði ágætlega fyrir austan í mars. Til dæmis var góð veiði í Hornafjarðardýpi og Lónsdýpi í vor. Að öðru leyti hefur þetta verið slappt og vertíðin er örugglega undir meðallagi,“ sagði Einar Geir Guðnason, skipstjóri á Jóni á Hofi ÁR, í samtali við Fiskifréttir. Jón á Hofi ÁR er aflahæsta skipið á vertíðinni með rúm 220 tonn.

Einar Geir sagði að þegar bátarnir færðu sig yfir á vestursvæðið snemma sumars hefði dregið úr veiðinni. Miðin þar hefðu þó verið misjöfn. Eldeyjarsvæðið var slakt, sömuleiðis Surtseyjarsvæðið en einhver reytingur fékkst af humri í Jökuldýpinu.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.