Norska sjávarútvegsráðuneytið boðaði fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi í Noregi til skyndifundar í gær til þess að ræða illa umgengni veiðiskipa á makrílmiðunum.
Í frétt frá ráðuneytinu kemur fram að strandgæslan og fiskveiðieftirlitið hafi orðið vitni að mörgum atvikum þar sem makríl hafi verið sleppt úr veiðarfærinu og hann drepist vegna þess að viðkomandi veiðiskip hafi fengið of stór köst til þess að geta innbyrt aflann sjálf og ekki getað gefið öðrum skipum af aflanum.
Strandgæslan segir að þarna hafi verið um algjörlega óásættanleg atvik að ræða. Talsmaður sjávarútvegsráðuneytisins segir á vef ráðuneytisins að það megi nánast flokkast undir vanrækslu að vera einskipa á miðunum nú þegar svona góð veiði sé. Því sé mælt með því að mörg skip séu á miðunum hverju sinni. Þá er minnt á að fara þurfi eftir reglum um sleppingar og vakin athygli á því að betra sé að sleppa of miklu en of litlu þegar slíkar aðstæður komi upp.