Starfshópur um stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða hefur nú lokið vinnu sinni og skilað skýrslu til atvinnuvegaráðherra. Hún verður lögð inn á samráðsgátt stjórnvalda í dag þar sem almenningi gefst kostur í tvær vikur á að koma inn athugasemdum og ábendingum um efni skýrslunnar. Innsendar umsagnir og athugasemdir verða hafðar til hliðsjónar þegar ráðherra tekur tillögur starfshópsins til frekari skoðunar.
Ráðherra mun að loknu samráði taka ákvörðun um framtíð og lagaumgjörð hvalveiða á Íslandi.
„Markmið skýrslunnar er að vera grundvöllur að framtíðarstefnumótun á sviði hvalveiða, til að efla faglegan grundvöll ákvarðanatöku og stuðla að bættri stjórnsýslu til frambúðar, Ljóst er að hvaða leið sem farin er þarf að ráðast í breytingar á lögum og er stefnt að því að slíkt frumvarp yrði lagt fram á næsta löggjafarþingi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Skipan starfshóps
Með bréfi dagsettu 13. febrúar 2024 skipaði þáverandi matvælaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, starfshóp til að rýna og skila skýrslu um stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli.
Starfshópinn skipuðu Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari og var hann janframt formaður. Aðrir í starfshópnum voru Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við lagadeild Háskóla Íslands, Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari, Snjólaug Árnadóttir dósent og forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, og Trausti Fannar Valsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Árni Kolbeinsson lét af störfum í hópnum með bréfi dags. 5. október 2024 í kjölfar skipulagsbreytinga í ráðuneytinu.