Fiskistofa auglýsti í morgun skyndisölu á 14.750 tonna aflaheimildum í loðnu í skiptum fyrir þorsk. Tilboð þurfa að berast fyrir klukkan tvö í dag og verða þau opnuð á miðnætti í kvöld.
Þessar aflaheimildir í loðnu voru auglýstar fyrr í mars en ekkert tilboð barst í þær, væntanlega vegna strangra skilyrða um lágmarksboð á skiptimarkaði. Fiskistofu ber að hafna tilboðum í tegund þegar þorskígildistonn uppboðstegundar er lægra en 45% af þorskígildi tegundar sem boðin er í skiptum.
Atvinnuvegaráðuneytið hefur nú með breytingum á reglugerð afnumið þessi lágmarksskilyrði hvað loðnuna áhrærir.
Markmið með skiptimarkaði Fiskistofu er að fá þorsk, ýsu, ufsa eða steinbít í skiptum fyrir aðrar tegundir sem teknar eru framhjá aflahlutdeild og ráðstafað í pottana svonefndu.