Eftirtektarverður árangur hefur náðst í slysavörnum hjá Þorbirni á þeim fjórum árum sem Björn hefur starfað hjá fyrirtækinu. Skráðum slysum á sjómönnum og landvinnslufólki hefur á þessum tíma fækkað um hvorki meira né minna en 97%. Fyrir utan heilsu og velferð starfsmanna fyrirtækisins þýðir þessi árangur líka gríðarlegan sparnað í iðgjöldum til tryggingafélags.

Fyrirtækinu lokað

Fyrsta smitið af völdum Covid-19 greindist á Íslandi 28. febrúar á síðasta ári. Á rétt innan við þremur vikum voru smitin orðin 199 talsins. Björn segir að þungi hafi ekki færst í umræðuna innan sjávarútvegsins um alvarleika faraldursins fyrr en í kringum 11. mars.

„Að morgni 12. mars setjumst við niður, ég og framkvæmdastjórn Þorbjarnar, og ákveðið var að loka öllu fyrirtækinu fyrir óviðkomandi aðgangi. Við vildum reyna að klippa á allar mögulegar smitleiðir. Við lokuðum skrifstofunni, lágmörkuðum allan samgang milli landvinnsluhúsa, settum upp merkingar á fjórum tungumálum og allir okkar þjónustuaðilar þurftu að skrifa undir mjög ítarlega yfirlýsingu um að þeir færu í einu og öllu að sóttvarnareglum fyrirtækisins. Mér fannst rétt að leggja öll spilin á borðin strax í upphafi og bakka frekar í framhaldinu ef aðgerðirnar reyndust of strangar,“ segir Björn.

Jarðhræringarnar „mikill“ skóli

Hann segir að á sama tíma og gripið hafi verið til sóttvarnaaðgerða hafi Grindavíkurbær í raun verið á kafi í náttúruvarnaviðbrögðum vegna mikilla jarðhræringa þegar margir og jafnvel stórir jarðskjálftar voru daglegt brauð. Rýmingaræfingar voru nýlega afstaðnar hjá Þorbirni og búið að staðfesta virkni rýmingaráætlunarinnar. Fyrir vikið hafi starfsmenn verið með á nótunum þegar veirufaraldurinn reið yfir.

Aðgerðastjórn Þorbjarnar fundaði að lágmarki þrisvar í viku fram á mitt sumar þegar fór að hægja á smitum í samfélaginu. Tíminn var notaður til að hreinsa út úr öllu lausu lagerplássi til þess fyrirtækið væri betur búið undir aukna birgðasöfnun. Um leið var öllum tilmælum almannavarna og landlæknis fylgt í hvítvetna og gott samstarf tókst við embætti landlæknis. Allar þessar ráðstafanir eru enn við lýði hjá Þorbirni. Allir starfsmenn eru hitamældir á hverjum morgni þegar þeir koma til vinnu og markið var lækkað úr 38° í 37,5° svo menn teldust veikir. Starfsmenn eru sendir heim ef einhver minnsti vafi er á því hvort þeir séu veikir.

Veikindadögum fækkaði

„Við lögðum þunga áherslu á persónulegt hreinlæti starfsmanna og í kjölfarið fækkaði veikindadögum verulega út af öðrum umgangspestum. Við höldum nákvæma skráningu yfir veikindi starfsmanna og það virðist eins og hugarfar þeirra hafi breyst í faraldrinum. Augljóst var að starfsmenn hugsuðu vel um sig sjálfa,“ segir Björn.

Síðastliðið vor komu upp veikindi á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK, frystitogara Þorbjarnar, þegar hann var við veiðar austur af landinu. Ákvörðun hafði verið tekin áður hjá Þorbirni að meðhöndla öll veikindatilfelli til sjós sem jákvæð veirutilfelli þar til annað kæmi í ljós. Hrafni Sveinbjarnarsyni var strax stefnt inn til Vestmannaeyja. Áhöfnin var skimuð, beðið var eftir niðurstöðum og þær reyndust neikvæðar. Í þrígang stefndi Þorbjörn skipum sínum í land til skimunar á áhöfnum. Allir sjómenn á frystitogurum Þorbjarnar hafa verið skimaðir alveg frá því faraldurinn kom upp fyrir brottför í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu.  Lengt var í úthaldi línuskipa Þorbjarnar og viðhald á skipum í inniverum var lágmarkað niður í það allra nauðsynlegasta. Gott samstarf var við þjónustuaðila um að standa sem réttast að sóttvörnum. Verktakar hafa verið fengnir til að sótthreinsa skipin hátt og lágt eftir lengri inniverur, mæla loftgæði og fleira.

Alvarleg smit í Valdimar GK

Í september bárust þær fréttir að þrír í áhöfn línuskipsins Valdimars GK væru lagstir veikir. Í samráði við landlæknisembættið var ákveðið að fylgjast í fyrstu náið með framvindu veikindanna en eins og hendi væri veifað veiktust stöðugt fleiri. Skipið var þá að veiðum undan Vatnajökli og átti eftir 18-20 klukkustunda stím heim til Grindavíkur. Um tíu manns voru lagstir veikir af fjórtán manna áhöfn, þar á meðal stýrimaðurinn og vélstjórinn. Skipstjórinn, sem var líka orðinn veikur, náði að sigla skipinu inn til Njarðvíkur í vitlausu veðri og sjó. Þar hafði móttaka verið undirbúin í samvinnu við Landhelgisgæsluna, lögregluna, Sjúkrahúsið í Keflavík, almannavarnir og embætti landlæknis. Við skimun í Njarðvík kom í ljós að hver einasti skipverji var smitaður af Covid-19 og sumir mikið veikir.

Björn segir að það sem hafi staðið upp úr varðandi þessa aðgerð alla hafi verið sú sterka taug eigenda og stjórnenda fyrirtækisins til áhafnarinnar.

Eftir að veikindin komu upp í Valdimar GK lagði Þorbjörn ofuráherslu á það og náði því í gegn að alla íslenska sjómenn, líka þá sem fara í styttri veiðiferðir, þ.e. í fjóra sólarhringa eða 8 klukkutíma í heimahöfn, má nú skrá í einkennalausa skimun hjá heilsugæslunni. Í framhaldinu var ákveðið að enginn sjómaður hjá Þorbirni fer óskimaður út á sjó.