Samtök fiskimanna og framleiðenda í skoskum uppsjávariðnaði hvetja bresku ríkisstjórnina og framkvæmdanefnd Evrópusambandsins til þess að skerða rétt Færeyinga til veiða á makríl og kolmunna í skoskri lögsögu nú þegar fyrir dyrum stendur að endurnýja fiskveiðisamning ESB ríkjanna og Færeyja sem gerður var árið 2014.

Færeyingar hafa nýtt sér nánast til fulls rétt sinn til veiða á makríl og kolmunna í skoskri lögsögu og nemur aflaverðmætið rösklega 8 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma hafa bresk skip ekki veitt einn einasta sporð af þessum tegundum í færeyskri lögsögu. Skoskir uppsjávarmenn halda því fram  að Færeyingum gefist kostur á að veiða hágæðamakríl við Skotland sem sé mun verðmætari en sá sem veiðist við Færeyjar og síðan selji þeir hann inn á sömu markaði og Skotar sem séu að auki aðþrengdir vegna lokunar mikilvægra markaða í Rússlandi og Nígeríu.

Sjávarútvegsvefurinn FISHupdate.com skýrir frá þessu.