Skosk fiskiskip hafa nú hafið á ný veiðar á makríl í nót eftir níu ára hlé. Nótaveiðar voru lengst af hin hefðbundna aðferð skoska flotans á makrílveiðum en á tíunda áratug síðustu aldar fóru togveiðar að ryðja sér til rúms í þessum veiðiskap og urðu fljótlega allsráðandi.
Núna hafa tvö uppsjávarskip frá Peterhead í Skotlandi, Lunar Bow og Pathway, snúið aftur til nótaveiða á makríl, fyrst skoskra skipa. Ástæðan er sú að gæði aflans eru sögð meiri fáist hann í nót fremur en í troll og því henti hann betur á Japansmarkað sem borgi hæsta verðið.
Frá þessu er skýrt í breska sjávarútvegsblaðinu Fishing News International og því bætt við að norsk skip sem stundi makrílveiðar í Norðursjó í september og október taki afla sinn að langmestu leyti í nót.