Skosk og írsk fiskiskip veiddu tæplega 200 þúsund tonn af makríl og síld umfram kvóta á árunum 2001-2005. Þetta kemur fram í fylgigögnum með reglugerð Evrópusambandsins frá 2007. Reglugerðin tekur til skerðingar á kvóta breskra og írskra fiskiskipa á árunum 2007-2012 til að mæta ofveiðinni á fyrrgreindu tímabili, að því er fram kemur á vef LÍÚ.

Í gögnum með reglugerðinni, þar sem ofveiðin er greind eftir veiðisvæðum, kemur fram að alls veiddu skosk og írsk fiskiskip um 151.000 tonn af makríl umfram kvóta á árunum 2001-2005 og ennfremur um 44.000 tonn af síld umfram kvóta á sama tímabili. Skotar veiddu 117.500 tonn af makríl umfram kvóta en Írar 33.500. Skotarnir sátu hins vegar einir að umframveiði í síldinni.

Skotar hafa hafa haft sig mjög í frammi í gagnrýni á makrílveiðar Íslendinga að undanförnu og m.a. borið við að ábyrgum veiðum þeirra sé ógnað. Aberdeen Press and Journal segir frá því morgun að Skotar hafi krafist þess að fiskveiðistjóri þeirra færi fyrir breskri sendinefnd á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ESB ríkja, sem fram fer í Brussel í dag, þegar í ljós kom að sjávarútvegsráðherra Bretlands átti ekki heimangengt.

Á fundinum í Brussel á m.a. að ræða þann ágreining sem risið hefur á milli strandríkja um skiptingu veiðiheimilda í makríl. Strandríkin funduðu í Reykjavík í liðinni viku og fulltrúar þeirra hittast aftur á fundi í næsta mánuði, segir ennfremur á vef LÍÚ.