Skoskum fiskimönnum finnast samningamenn ESB hafa verið alltof undanlátssamir fyrir þeirra hönd gagnvart bæði Norðmönnum og Færeyingum þegar kemur að gagnkvæmum veiðiheimildum.

Á fundi í Bergen í Noregi nú fyrir helgina náðist samkomulag milli ESB og Norðmanna um kolmunnaveiðar, þar sem samþykktur var aukinn aðgangur norskra skipa að ESB-lögsögunni. Eftirleiðis mega Norðmenn veiða 68% af kolmunnakvóta sínum vestan Bretlandseyja í stað 61% áður. Að auki framselur ESB 110.000 af kolmunnakvóta sínum til Noregs í stað 75.000 tonna áður. Skoska samninganefndin mótmælti þessum ákvörðunum harðlega.

Þá hafa skoskir makrílsjómenn og makrílframleiðendur hvatt til þess að aðgangur færeyskra skipa að ESB- lögsögunni til þess að veiða makríl samkvæmt samningi frá 2014 verði minnkaður. Fram kemur á vefnum FishUpdate.com að makrílafli Færeyinga í ESB-lögsögunni, aðallega við Skotland, hafi numið 33.000 tonnum árið 2015 en ESB-skip hafi engan makríl veitt í lögsögu Færeyja. Bent er á að makríllinn í ESB-lögsögunni sé betra hráefni en sá sem veiðist í færeyskri lögsögu og það sé makrílframleiðendum í Skotlandi og á Hjaltlandi í óhag að Færeyingar keppi við þá á mörkuðum með makríl sem veiddur sé við Bretlandseyjar. Viðræður um endurnýjun á þessum samningi fara fram í Brussel 6.-7. desember.

Þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna um Brexit semur ESB ennþá við önnur ríki um fiskveiðiréttindi fyrir hönd Breta. Það mun breytast þegar útganga Breta úr ESB kemur til framkvæmda.