Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, hefur farið mikinn í deilunni um makrílinn undanfarnar vikur og mánuði. Nú hefur hann tilkynnt færeyskum stjórnvöldum að Skotar muni efla fiskveiðieftirlit með færeyskum skipum til þess að koma í veg fyrir að þau fari ránshendi um skosk lögsögu ,,í svívirðilegri viðleitni sinni til að hrifsa til sín makríl”, eins og hann orðaði það í viðtali við blaðið Herald Scotland.

Lochhead sagði að skosk veiðieftirlitsskip myndu grípa til aðgerða gegn færeyskum skipum ef sjálfbærni makrílveiðanna virtist vera ógnað, ... hvað sem það nú þýðir.

Skosk stjórnvöld hafa þrýst á Evrópusambandið að beita bæði Færeyinga og Íslendinga nú þegar refsiaðgerðum fyrir að brjóta alþjóðlega fiskveiðisamninga. Þau segja að nú megi engan tíma missa þar sem makrílveiðitíminn sé hafinn.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum Fis.com. Þar kemur einnig fram að makríll sé verðmætasti fiskafli Skota. Á árinu 2009 hafi verðmæti hans numið 135 milljón pundum eða jafnvirði 26 milljarða íslenskra króna.