Talsmaður skoska uppsjávarfyrirtækja hefur lýst ánægju með samninginn sem ESB, Noregur og Færeyjar gerðu með sér á fundi á Írlandi í síðustu viku og sagt hefur verið frá m.a. hér á vefnum.
Sérstaklega er hann ánægður með að kvótasamdráttur milli ára skyldi verða minni en upphaflega var lagt af stað með. Niðurstaðan var 15% minnkun en í upphafi voru viðræður um vísindaráðgjöf sem gerði ráð fyrir 37% niðurskurði.
Makríll er verðmætasta nytjategund Skota og er áætlað að makrílkvóti þeirra geti skilað sem svarar 25 milljörðum króna á næsta ári, að því er fram kemur á vefnum seafoodsource.com.
Samkomulag ESB, Noregs og Færeyja gerir ráð fyrir að heildarkvótinn á næsta ári verði 895.000 tonn. Af honum koma 442.000 tonn í hlut ESB og þar af fá Bretar rúman helming eða 243.000 tonn.
Bretar eins og margar aðrar þjóðir urðu fyrir búsifjum þegar innflutningsbann Rússa tók gildi sumarið 2014, enda var Rússland þeirra stærsti markaður fyrir makríl og tók 18% af heildarútflutningi þeirra. Frá þeim tíma hefur Nígería verið stærsti makrílmarkaður Breta og keypti 20% af breskum makríl árið 2014 og 27% á tólf mánaða tímabili fram til ágústmánaðar 2015. Frá árinu 2013 hefur útflutningur til Hollands og Kína einnig vaxið umtalsvert.
Þá hafa Bretar nýtt sér rýmkaðar heimildir ESB til þess að geyma makrílkvóta fram á næsta ár og hefur það að sögn létt á verðþrýstingi